Það hefur verið fróðlegt að skoða íslenska fjölmiðla undanfarna daga þegar kemur að þeim fjármálaerfiðleikum sem hafa verið í Grikklandi og þjóðaratkvæðagreiðslu þar í landi.
Grísk alþýðu á skilið samúð
Það eru Grikkir sjálfir sem hafa komið sér í þennan vanda með umfram eyðslu og óráðsíu. Þegar kemur að spillingu nýtur Grikkland þess vafasama heiðurs að skipa 69. sæti af 175 hjá hinn virtu stofnun Transparency International. Ríkisskuldir eru gríðarlegar þrátt fyrir mikinn alþjóðlega stuðning undanfarin ár, atvinnuleysi er afar víðtækt,. Hlutfall opinberra starfsmanna af vinnuafli er auk þess hátt og að minnsta kosti fjórðungur hagkerfisins er talinn svartur.
Flestir eru sammála því að Grikkir þurfa að koma böndum á klíkuskap eigin stjórnmálaafla. Þeir þurfa að binda enda á umfangsmikil forréttindi ákveðinna stofnana í samfélaginu, hersins og kirkjunnar. En umfram allt þarf að opna hagkerfið enn frekar ásamt því að draga úr ríkisafskiptum og einkavæða ríkisbankana.
Grikkir standa vissulega frammi fyrir miklum erfiðleikum. Gríska alþýðan á svo sannarlega skilið samkennd. Gríska ríkið, aftur á móti, ásamt stjórnmálamönnum þess og auðstétt eiga naumast að njóta samúðar.
Heimsýnarbræður gefa Grikkjum góð ráð
En allir kunna ráð, nema sá sem í voðanum stendur, segir máltækið. Litríkur hópur hérlendra spakvitringa hefur stokkið fram á ritvöllinn til að veita Grikkjum góð ráð. Þeir sem hafa mest horn í síðu meiri alþjóðasamvinnu og samstarfs Evrópuþjóða er þar áberandi; Þeir Heimssýnarbræður Jón Bjarnason, Hjörleifur Guttormsson og Davíð Oddsson hafa ekki látið sitt eftir liggja á síðum Morgunblaðsins með sitt þrönga sjónarhorn. Samhliða því hafa þeir ítrekað varað við Evrópusamvinnu. Einangrunarsysturnar Lilja Mósesdóttir og Vigdís Hauksdóttir eru svo aldrei langt undan. Þetta eru helstu pennar Blaðsins sem bar uppi í áratugi hugsjónir um opið samfélag og vestræna samvinnu.
Eining eða „ekki sundrung“?
Af öllum ólöstuðum er Morgunblaðið gengið lengst í umfjöllun um Grikklandsfárið. Hatur blaðsins á nánari samvinnu Evrópuþjóða á fáa keppninauta. Í blaðinu 9. júlí er greint frá því þegar Tsipras forsætisráðherra Grikklands ávarpaði Evrópuþingið um skuldavanda landsins. Þar óskaði hann eftir frekari neyðaraðstoð björgunarsjóðs Evrópuþjóðanna. Hann færði þinginu þau skilaboð að Gríska þjóðin vilji áfram vera með evru sem gjaldmiðil og meirihluti þjóðarinnar styðji áfram veru Grikkja í Evrópusambandinu. En Grikkir þyrftu fyrst aðstoð. Þetta voru áherslur allra alvarlegri fjölmiðla Evrópu. Hið íslenska Morgunblað átti hér erfitt með sig. Samvinna gat það ekki heitið. Sundrung yrði það að vera. Og viti menn: Það að vilja einingu Evrópu heitir nú í fyrirsögn Morgunblaðsins „Vill forðast sundrung í Evrópu“.
Morgunblaðið og illfygli Evrópu
Ítrekað hefur Morgunblaðið ekki sagst skilja af hverju Grikkjum er ekki komið til hjálpar með meira fé frá Evrópusambandinu. Þetta sýni auðvitað hversu illa innréttað þetta samband er. Illfyglin vilji fátæka Grikki í gjaldþrot. Allar þessar Brussel stofnanir verði bara að borga meira og fella niður skuldir. Hik í að borga meira til Grikklands sýni hvaða rugl það er að vilja nánari Evrópska samvinnu.
En til að að bíta höfuðið af skömminni, reiknar Morgunblaðið síðan út, þann 10. júlí, hvað það myndi kosta ef Íslendingar væru innan Evrópusambandsins og neyddust til að aðstoða Grikki. Sú lína er lögð af Heimssýnar-slektinu að það sé fáránlegt að greiða tugi milljarða til aðstoðar Grikkjum. Það að borga grískar skuldir sýni hvílík vitleysa það er að vera í Evrópskri samvinnu!
Fólk borgar skuldir Grikkja, ekki stofnanir
En það er reyndar sannleikskorn í þessu síðasta útspili Morgunblaðsins. Nú er ætlast Grikkir til að þær þjóðir Norður-Evrópu ,sem hafa sýnt meiri ráðdeild og sparnað, borgi enn frekar – og felli niður fyrrum skuldir. Þvert á það sem Tsipras forsætisráðherra Grikkja heldur fram, eru það að endingu danskir, hollenskir eða þýskir skattgreiðendur sem verða að styrkja Grikki enn frekar. Sá sem lofaði öllum öllu, Tsipras, er að ætlast til þess að portúgalski bóndinn, slóvaski skrifstofumaðurinn, ítalski hjúkrunarfræðingurinn og finnski kennarinn borgi meira í skuldum Grikkja.
Réttum Grikkjum hjálparhönd
Auðvitað á að rétta Grikkjum hjálparhönd. Það verður öllum dýrt, bæði Grikkjum og öðrum. Slíkt verður einungis gert með sameiginlegu átaki Evrópu og alþjóðasamfélagsins. Ólíkt því sem Morgunblaðið heldur fram, kallar vandi Grikkja nefnilega eftir því að þjóðir Evrópu vinni saman. Framtíð Grikkja byggir á Evrópu. Það vita Grikkir best sjálfir, enda Morgunblaðið ekki borið í hús í Aþenu.