Í jólaboðum landsins síðustu daga hefur eitt umræðuefni verið öðru vinsælla ef marka má heimildarmenn Hringbrautar. Sumsé samkvæmisspurningin hvort Ólafur Ragnar Grímsson muni tilkynna í nýársávarpi sínu að hann hyggist bjóða sig enn eina ferðina fram.
Ef hann ákveður það eins og margir af álitsgjöfum þjóðarinnar telja líklegt og hefur sigur í kjölfarið mun herra Ólafur Ragnar Grímsson ríkja sem forseti yfir Íslandi í 24 ár. Enginn ókonungborinn vestrænn leiðtogi kemst nálægt slíkum valdatíma, reyndar eru það einkum þjóðhöfðingjar í vanþróuðum ríkjum sem sitja svo lengi. Oft er deilt um lögmæti þeirra þrásetu, að svindl í kosningum skýri valdatímann, en sú er ekki raunin hvað varðar ÓRG. Hann fékk fjölda mótframboða fyrir rúmum fjórum árum en náði meira en 50% allra atkvæða og sigraði með yfirburðum. Hann hefur ekki orðið ber að kosningasvindli. En hann kann að lesa íslenska þjóðarsál eins og eigin lófa.
Hvað sem því viðvíkur er ljóst að sú tilhugsun að sitja uppi með sama forseta í 24 ár er ekki öllum geðfelld.
„Við verðum að finna einhvern,“ heyrist gjarnan á götuhornum alþýðunnar.
Þar er m.a. vísað til þess að fjölmiðlar hafa kallað Ólaf Ragnar „sundrungartákn“. Rætt var um forsetaembættið sem sameiningartákn þjóðarinnar eigi alls fyrir löngu og fyrri forsetar gerðu sig sjaldnast seka um að stofna til þjóðarófriðar. Nú er rætt um aukna pólaríseringu, sundrungu og átakahyggju sem fylgi bóndanum á Bessastöðum.
Styrjöld fram undan
„Á næstu mánuðum mun fara fram styrjöld um embættið,“ segir einn af almannatenglum þjóðarinnar, sem þó þorir ekki að koma fram undir nafni. Það er e.t.v. til marks um spennuna, hagsmunina, ástandið.
Ólafur Ragnar hefur hvorki hræðst spennu né átök á löngum ferli, ef eitthvað virðist hann njóta þeirra. Hann hefur ítrekað sagt nei við lögum, synjað að skrifa undir og samþykkja þau, eini forsetinn sem stigið hefur slíkt skref. Frægt var þegar hann synjaði fjölmiðlafrumvarpi Davíðs Oddssonar með epísku ávarpi, en frumvarpinu hefur verið lýst sem „reiðikasti á servíettu“ þótt sagan sýni að þörf var á ígrunduðum lögum um fjölmiðla á þessum tíma. Það þykir aldrei gott að semja lög í reiðiskasti. Og forsetinn sagði nei. Ekki hefur það latt hann að vera í vinfengi við aðila sem tengdust 365.
Reyndar er áhugavert að daður ÓRG við útrásarvíkinga virðist gleymt í hugum flestra. You aint seen nothing yet ræðan virðist hafa horfið af sjónarsviðinu sama dag og ÓRG vann sigra í huga meirihluta almennings með synjun á Icesave-lögunum.
Í vasa Dorritar?
Þá er ÓRG sagður hafa konungsvætt Bessastaði en fæstir ræða það sérstaklega sem vandamál í dag. Þrátt fyrir allt draga fæstir sjálfstæði ÓRG í efa, hvað sem líður hégómanum og öllum opinberu fjármununum sem renna til embættisins. Viðmælendur Hringbrautar eru sammála um að vera kunni að ÓRG lúti tilteknum hagsmunum við og við og gott hefur verið sagt milli hans og þorra framsóknar- og sjálfstæðismanna, sem er áhugavert í ljósi þess að Ólafur Ragnar kom úr Alþýðubandalaginu. En enginn er sagður hafa Ólaf Ragnar í vasanum. Ekki nema þá e.t.v. Dorrit.
Eitt sem veikir stöðu forsetans er að Dorrit er sögð búa að mestu utan landsteinanna nem þegar forsetahjónin sjá sér akk í að koma saman t.d. vegna fátækrahjálpar líkt og fyrir jól með myndatökumenn við hvert fótmál. Hvað Dorrit varðar hafa vaknað spurningar um siðferði, hjúskapar- og skattamál. Heimildir Hringbrautar herma að það sé Dorrit mikið metnaðarmál að hafa þann status að vera titluð forsetafrú. Hún er vellauðug af demantaviðskiptum ráðandi gyðingaættar og þarf ekki fé – en það að vera forsetafrú er sagt kitla hana mjög. Og það kann að hafa áhrif á hug Ólafs Ragnars Grímssonar.
Síminn stoppar ekki hjá Katrínu
Veltur það þá einungis á geðþótta ÓRG og Dorritar hvort við fáum nýjan forseta eða ekki?
Flestir eru sammála um að enginn þeirra kandídata sem stigið hafa fram og gefið forsetaframboði undir fótinn til þessa geti ógnað Ólafi Ragnari ef kosið verður.
En Katrín Jakobsdóttir er sögð eiga góðan séns ef hún fer fram.
Hringbraut hefur heimildir fyrir að síminn hafi varla stoppað hjá Katrínu síðustu vikur þar sem þrýst er á hana að fara fram gegn ÓRG. Þessi mikli þrýstingur sé skýring þess að Katrín hefur ekki aftekið með öllu hugmyndina um forsetaframboð. Hundruð fólks hafi skorað á Katrínu að hjóla í ÓRG, lýðræðisins vegna. Sá hópur er sagður líta á það sem óbærilegan veruleika að sami maður muni gegna forsetastöðu á Íslandi í heil 24 ár.
Vald spillir, algjört vald gerspillir, sagði Ashton lávarður.
Ummæli forseta Íslands um múslima á dögunum eru einnig sögð hafa hleypt illu blóði í margan landsmanninn sem og ýmis tækifærismennska sem hinn þrautseigi og annars dags daglega staðfasti forseti lýðveldisins hefur orðið ber að.
En hverjir eru möguleikar Katrínar og hvað gæti framboð kostað hana sjálfa, hvað sem líður því sem mætti kalla þegnskylduákvörðun?
Katrín nýtur mikilla vinsælda á þingi sem og meðal þjóðarinnar skv. mælingum Gallup. Rætt hefur verið um hana sem næsta forsætisráðherra. Því er ekki einfalt fyrir hana að taka ákvörðun. Ef Katrín færi fram segja vinir henni kunnugir að kannski muni hún gera það mest af skyldurækni en ekki vegna eigin áhuga. Talið er að Katrín telji það þungbært að slökkva vonir þeirra sem telja að aðeins öflug kona kunni að steypa ÓRG af stóli.
Katrín er sögð höfða til upplýstra en fylgisfræðingar greindu eftir síðustu forsetakosningar þar sem ÓRG vann Þóru Arnórsdóttur fjölmiðlakonu og aðra kandídata með meiri mun en flestir sáu fyrir, að höfuðaðdáendur núverandi forseta séu ómenntaðir einhleypir karlar, búsettir úti á landi. Þetta þykir ögn kaldhæðið í ljósi þess að Ólafur er menntamaður með doktorsgráðu.
„Hann kann vel að tala við bolinn þannig að skiljist,“ segir einn þingmanna um Ólaf Ragnar.
Hagsmunir ráðandi klíku
Aldraðir eru annar hópur, líklegri til að kjósa ÓRG en aðrir, enda Ólafur sjálfur roskinn að æviárum og mörgum öldruðum einstaklingnum hvatning um að hæpið sé að láta kennitölu ráða hverjir þurfi að setjast í helgan stein og hverjir ekki. Hinu skal ekki heldur gleymt að stefna ráðandi afla innan valdakjarna sjálfstæðismanna og framsóknarmenna fer saman við stefnu ÓRG í seinni tíð. Ljóst er af leiðaraskrifum í Mogganum að mönnum eins og Davíð Oddssyni hugnast vel að ÓRG sitji áfram. Má þar nefna hagsmuni útgerðarinnar og tregðu til breytinga á stjórnarskrá. En eigi að síður segir þingmaður stjórnarmeirihlutans: „Ef Ólafur fer fram og fær kosningu held ég að það sé borðleggjandi að setja verði lög um að enginn geti setið lengur á Bessastöðum en 10 ár. Þetta er orðið ágætt.“
Nafn Salvarar einnig nefnt
Gætu aðrir en Katrín ógnað ÓRG?
Nafn Salvarar Nordal hefur auk Katrínar verið nefnt hjá þeim sem leita logandi ljósi að nýjum arftaka á Bessastöðum. Þorsteinn Pálsson, fyrrum forsætisráðherra, og Salvör eru par. Þorsteinn hefur skrifað marga ádrepuna um forseta Íslands. Hvort það er vísbending um að tíðinda sé að vænta er þó fullkomlega óvíst og þykir fremur ómálaefnalegt að ræða í þessu samhengi. Annars eru fáir aðrir kostir nefndir til sögunnar – þótt enginn viti hverjir muni dúkka upp á nýju ári.
Nokkrir af viðmælendum Hringbrautar nefndu að þeir sem leita landsföðurímyndar vilji margir hverjir engar breytingar á Bessastöðum, allra síst nú þegar Bjarni Ben og Sigmundur Davíð, „ríkir pabbastrákar“, eins og einn viðmælandinn orðar það stjórna landinu. Þeir eru sagðir harla fáir sem líta á þá tvo sem landsfeður. Þannig kunni að verða tromp á hendi ÓRG hve lítt formenn valdaflokkanna tveggja séu landsföðurlega vaxnir. Þ.e.a.s. ef ÓRG ákveður að gera þjóðina orðlausa á nýársdag.
Mikil spenna fram undan
Eitt er í öllu falli víst.
Þjóðin mun sitja sem límd við sjónvarpstækin á nýársdag þegar leikritið hefst.
Hver einasti kjaftur mun verða vitni að listrænu áhersluþögnunum og látbragðinu sem ÓRG er kunnur fyrir og fylgja mun yfirlýsingu forseta Íslands.
Kannski munu fleiri sitja spenntir yfir nýársávarpinu en sjálfu áramótaskaupinu?
Kannski verður yfirlýsing forseta Íslands hráefni í skaup næsta árs?
Það er stundum stutt milli skaups og veruleika – um það ber íslensk stjórnmálasaga ítrekað vitni.
Spennið beltin – og fáið ykkur popp. Eftir frjóra daga gerist það!
(Þessi fréttaskýring Björns Þorlákssonar birtist fyrst í Kvikunni á Hringbraut).