Íslensk kona, Díana Björnsdóttir, upplýsir í umræðu á facebook um þátt Ríkisútvarpsins um heilbrigðismál að á einu ári hafi hún þurft að greiða 600.000 krónur úr eigin vasa eftir að hún greindist með krabbamein.
Þetta var árið 2008, fyrir hrun íslensku krónunnar.
Úr hömlu hefur dregist að begðast við þeim kostnaði sem með stjórnvaldsbreytingum undangenginna ríkisstjórna hefur verið samþykktur og eykur mjög álögur á sjúkt fólk. Þetta var til umræðu í sjónvarpsþættinum í gærkvöld. Áhugaverðar umræður fara fram um málið á þræði Láru Hönnu Einarsdóttur og upplýsir Díana þar um eigin krabbameinskostnað.
Í umræðunum er vitnað í rannsóknir Rúnars Vilhjálmssonar prófessors en rannsóknir hans benda til að Íslendingar vilji félagslegt heilbrigðiskerfi, greitt með sköttum. Rúnar hefur þetta um þátt gærkvöldsins að segja og frammistöðu, yfirlýsingar og stefnu íslenskra stjórnmálamanna:
\"Umhugsunarvert var hve fáir stjórnmálamenn á sviðinu tóku undir sjónarmið almennings um aukna félagsvæðingu heilbrigðiskerfisins, þ.e. ekki einungis aukið opinbert fé heldur einnig aukinn félagslegan rekstur heilbrigðisþjónustunnar, til að treysta félagsleg markmið þjónustunnar. Því miður virðist vera orðin talsverð gjá milli viðhorfa stjórnmálamanna annars vegar og almennings hins vegar í heilbrigðismálum. Þetta átti þó ekki við um málflutning eins stjórnarandstöðuþingmanns á málfundinum,\" segir Rúnar prófessor í félagsfræði við hjúkrunardeild Háskóla Íslands.