Það er beinlínis raunarlegt að fylgjast með málflutningi eins af nýju þingmönnum Sjálfstæðisflokksins vegna þeirra hagræðingaraðgerða sem HB Grandi þarf að grípa til vegna þess hvernig íslenska krónan leikur nú sjávarútveg og aðrar útflutningsgreinar Íslendinga.
HB Grandi hyggst hagræða með því að sameina hluta af landvinnslu sinni og loka rekstrareiningu á Akranesi af þeim sökum. Tugir starfa á svæðinu gætu tapast. En hvers vegna þarf eitt stærsta sjávarútvegsfyrirtæki landsins að grípa til aðgerða? Það er augljóst og hefur komið fram í máli talsmanna fyrirtækisins. Orsökin er allt of sterk gengisskráning íslensku krónunnar og okurvextir sem Seðlabanki Íslands ákveður og ber ábyrgð á.
Meginvandi HB Granda og fleiri í útflutningsgreinum felst í þeirri ónýtu krónu sem þjakað hefur þjóðina í áratugi. Nú er hún allt of sterk, stundum er hún of veik. Hún er aldrei eins og heppilegt getur talist. Samt má ekki leita annarra lausna varðandi gjaldmiðlamál á Íslandi.
Hverjir verja ónýtu krónuna með kjafti og klóm? Jú, það eru sægreifar – þeir sömu og nú eru í miklum vanda vegna krónunnar – og svo flokkar eins og Framsókn og Sjálfstæðisflokkurinn sem Teitur Björn Einarsson er alþingismaður fyrir. Hann stígur nú fram og vælir úr af stöðunni á Akranesi og krefst þess að veiðileyfagjöld verði lækkuð. Hann ræðir ekkert um hinn raunverulega vanda sem er íslenska krónan sem flokkur hans og sægreifarnir vilja ekki hrófla við.
Haft er eftir Teiti Birni á visir.is í dag að rétt sé að íhuga lækkun veiðigjalda til að auka starfsöryggi fólks. Lausn þingmannsins á vanda Akurnesinga er sem sé að taka tekjur af ríkinu. Hvar á að skera niður á móti? Hann svarar því ekki. Hann nefnir heldur ekki að veiðigjöldin eru hóflegt afgjald sem þeir greiða sem eiga aðgang að verðmætustu auðlind þjóðarinnar til nýtingar fyrir sig. Sjávarútvegsauðlindin er eign íslensku þjóðarinnar. Ekki sjávarútvegsfyrirtækjanna.
Teitur Björn talar um í fréttinni að veiðileyfagjöld leggist “sérstaklega þungt á lítil og meðalstór fiskvinnslufyrirtæki á landsbyggðinni”. Nú hittist þannig á að HB Grandi er það fyrirtæki sem hefur mestan kvóta allra fyrirtækja á Íslandi og það er næst stærsta sjávarútvegsfyrirtæki landsins á eftir Samherja.
Því talar þingmaðurinn þá um “lítil og meðalstór” fyrirtæki þegar hann krefst lækkunar veiðileyfagjalda?
Er hann ekki fyrst og fremst að reka erindi stórútgerðanna í landinu sem studdu hann til setu á Alþingi?
Málflutningur þingmannsins nýja halda ekki vatni. Hann afhjúpar sig sem sannkallaðan “pilsfaldakapítalista” sem er Sjálfstæðisflokknum ekki til sóma. Áður fyrr lagði flokkur hans áherslu á að flokkurinn væri málsvari einkaframtaks en það virðist vera liðin tíð þegar þingmenn flokksins finna ekki aðrar lausnir á vandamálum en að benda á ríkið sem á sífellt að koma til hjálpar og borga eða gefa eftir tekjur eins og hann leggur til.
Grátkerlingar leysa engan vanda. Hvorki þær sem eru innan þings né hinar sem eru úti í atvinnulífinu.