Svört skýrsla óháðra aðila gefur til kynna að mörg stærstu fyrirtæki Bandaríkjanna skjóti nú gríðarlegu fé undan skatti með því að flytja það yfir í erlend skattaskjól. Fyrir vikið skortir fé til að halda innviðum samfélagsins gangandi. Tölurnar hafa vakið hneykslun, bæði innan Bandaríkjanna og utan. Full ástæða er til að láta nú ekki duga að fylgjast með úr fjarska heldur beina sjónum hingað heim í okkar eigin þjóðarrann.
Í dag, sléttum sjö árum eftir \"Guð blessi Ísland\" Geirs Haarde, sýnir hvert dæmið á fætur öðru (þrátt fyrir uppgang í efnahagslífi betur stæðra hópa) fram á að heilu þjóðfélagshóparnir lepja dauðann efnahagslega úr skel hér á landi. Ég hitti ungan mann á dögunum sem sagði mér að hann væri enn átta árum eftir að hann fór til tannlæknis síðast að greiða lánið sem hann tók fyrir kostnaðinum.
800 börn eru nú á BUGL samkvæmt fréttum dagsins. Eftir hrun varð ríkið að spara mjög m.a. í geðlækningum og sá sparnaður er að reynast þjóðinni dýr. Það hriktir í öllu heilbrigðiskerfinu, kostnaðarþátttaka er farin að koma í veg fyrir að fólk leiti læknis og innan veggja heimilanna er víða hrikalegt ástand. Að fimmta hver króna í heilbrigðiskerfinu sé sótt beint í vasa sjúklinga segir allt sem segja þarf. Hinir tekjulægri geta þurft að velja milli matar eða læknis. Afleiðingin er aukin stéttaskipting eftir efnahag, aukinn ójöfnuður.
Það skiptir lykilmáli í rekstri réttláts og góðs þjóðfélags að þeir sem græði mest hér á landi láti rentu af auði sínum renna til almannasjóða. Án skattlagningar verður ekkert velferðarkerfi. Jöfnuður er ein mesta auðlegð þeirra norrænu ríkja sem kenna sig við blandað hagkerfi. Kerfið nýtir sér kapítalíska hvata, en hugar einnig mjög að jöfnuði með skattastefnu og sterkum almannasjóðum. Þetta kerfi þarf að verja. Á það hefur verið gert áhlaup.
Vonandi rennur sá dagur aldrei upp að við lesum fréttir um að stærstu fyrirtæki Íslands séu hætt að skila sköttum til samfélagsins, að græðgin ein beri stefnu þeirra uppi. Manni verður hugsað til sölu Landsbankans í þessum efnum. Ójöfnuður og ágirnd mega ekki verða til þess að við missum sjónar á sammannlegum skyldum. Það er skammarlegt eitt og sér hve margir hafa hrakist í óyfirstíganlega fátæktargildru með því að hafa ekki aðgang að öðrum úrræðum en bótum. Hinir ríkari hafa næg forréttindi fyrir, þeir þurfa ekki að gerast þjófar ofan á annað eins og tölurnar úr svörtu skýrslunni um stærstu fyrirtæki Bandaríkjanna sýna og lesa má um hér.
Græðgin og siðleysið hefur ekki bara hálflamað velferðarkerfi Bandaríkjanna. Græðgin ógnar einnig því Íslandi sem við höfum verið hluti af og við viljum flest viðhalda; landi jöfnuðar, tækifæra, frelsis og mannúðar.