Davíð Oddsson, ritstjóri Morgunblaðsins, virðist leggja það á lesendur sunnudagsútgáfu blaðsins að fá vikulega í hendur búta úr æviminningum Davíðs undir merkjum Reykjavíkurbréfs. Margt einkennilegt hefur borið fyrir augu lesenda á þessum vettvangi á undanförnum mánuðum og árum þar sem persóna ritstjórans er oftar en ekki í forgrunni.
Þó minnast lesendur blaðsins þess ekki fyrr en nú að hafa séð þarna minningargreinar um hann sjálfan eftir hann sjálfan. Fyrir rúmri viku birtist umfjöllun vegna fráfalls Gorbasjevs fyrrum leiðtoga Rússa. Greinin var ríkulega myndskreytt, en þó einkum með myndum af Davíð og svo Rússlandsforseta og Reagan Bandaríkjaforseta þegar þeir héldu frægan fund í Höfða og heilsuðu Davíð eins og myndirnar sýna. Í Reykjavíkurbréfinu gerir Davíð mikið úr einhverjum vandræðagangi varðandi gestabók í Höfða en það virðist hafa verið eina hlutverk hans, sem þáverandi borgarstjóri í Reykjavík, að tryggja að gestirnir skrifuðu í gestabók gegn vilja einhverra misvitra embættismanna. Við fráfall Gorbasjevs, hins merka leiðtoga Sovétríkjanna, má ætla að engum nema höfundi Reykjavíkurbréfsins hafi verið efst í huga að skoða myndir af hinum látna leiðtoga með fyrrum borgarstjóra Reykjavíkur.
Nokkrum dögum síðar fellur drottning Breta frá, 96 ára að aldri. Heimsbyggðin syrgir hana og kveður með allri þeirri virðingu sem hugsast getur. Bregður þá svo við að ritstjóri Morgunblaðsins skrifar nýtt Reykjavíkurbréf og lætur myndskreyta það með tveimur risastórum litmyndum af sjáfum sér og drottningunni þegar hún heimsótti Höfða í borgarstjóratíð hans. Textinn með þessum myndum er að sjálfsögðu minningargrein um Davíð sjálfan – og eftir atvikum hina virtu og vel liðnu Bretadrottningu.
Þrjátíu til fjörtíu ár eru liðin frá því að Davíð Oddsson gegndi stöðu borgarstjóra í Reykjavík. Nú er svo komið að helmingur núlifandi Íslendinga var ekki fæddur þá og man ekki eftir umræddum borgarstjóra. Það eru einungis miðaldra,og einkum þaðan af eldri landsmenn, sem muna eftir honum í því hlutverki.Yngra fólkið heldur að Dagur Eggertsson og R-listinn hafi ríkt í Reykjavík frá upphafi. Tilgangurinn með ritun þessara minningargreina er ef til vill að reyna að leiðrétta þetta. Vandinn er hins vegar sá að samkvæmt mælingum heyrir til undantekninga ef fólk undir fertugu les Morgunblaðið og því er viðbúið að framtakið skili ekki árangri.
- Ólafur Arnarson.