Rithöfundur í miðbæ Reykjavíkur, á virðulegum aldri og því nokkuð vitur og reynslumikill, hefur haft fyrir venju í áraraðir að spássera um bæinn á hverjum degi. Þar sem þetta er mikill sómamaður væri freistandi að segja að hann sé sáttur við guð og menn. Það orðalag á þó ekki nægilega vel við þar sem hann er trúleysingi og því miður fjarska stoltur af því. Sæll í guðleysi sínu er hann um leið velviljaður flestum mönnum. Þess vegna hefur hann haft fyrir sið á hinum reglulegu spássitúrum sínum um bæinn að heilsa þeim sem hann mætir, þótt hann þekki alls ekkert til þeirra. Góðan daginn, segir hinn kurteisi og dagfarsprúði rithöfundur, hátt og snjallt við ókunnuga.
Bærinn hefur venjulega verið fullur af fólki en svo að segja enginn hefur tekið undir kveðju rithöfundarins. Það þykir sennilega ekki fullkomlega eðlilegt að sýna ókunnugum áberandi umhyggju og hlýju í mannmargri borg. Á síðustu vikum hefur rithöfundurinn verið að upplifa nokkuð alveg nýtt. Vegna samkomubanns hefur fámenni verið í miðbænum en nær allir þeir ókunnugu einstaklingar sem hann mætir taka nú undir kveðju hans og veifa meira að segja sumir til hans.
Um daginn fór rithöfundurinn í lengri göngu en venjulega, alla leið út í Gróttu. Þar voru margir á göngu, rétt eins og hann sjálfur. Það lá áberandi vel á öllum. Rétt er að taka fram að allt þetta glaðlega fólk hélt ákveðinni fjarlægð en kinkaði um leið vingjarnlega kolli til þeirra sem voru í tveggja metra fjarlægðinni. Rithöfundurinn hitti þarna áttræða konu sem var afskaplega lukkuleg með lífið og ekki hrædd við kórónaveiruna sem svo margir skelfast. Mikið er þetta góður dagur, sagði hún við rithöfundinn sem jánkaði því og síðan kvöddust þau kurteislega.
Rithöfundurinn er ekki einn um að koma auga á það að fjölmargir sýna nú ókunnugum meiri hlýju en áður. Fólk á göngu heilsast og brosir uppörvandi. Skilaboðin sem það sendir eru: Við erum öll í þessu saman og við munum komast í gegnum þetta.
Rithöfundurinn hefur ekki breytt lífi sínu að ráði, þrátt fyrir hremmingar sem kórónaveiran hefur framkallað. Hann er fremur einrænn og hinir einrænu þurfa ekki að breyta högum sínum svo mjög, enda kunna þeir allra best við sig heima hjá sér. Rithöfundurinn er heima að lesa og skrifa og fer svo í sína göngutúra og sýnir fólki sem hann mætir hlýju með vinalegri kveðju. Þannig líf á einstaklega vel við hann.
Á tímum kórónaveirunnar er sannarlega hætta á auknu heimilisofbeldi og andlegri vanlíðan. Um leið má ekki gleymast að á tímum eins og þessum eru þess einnig fjölmörg dæmi að einstaklingar sýni samkennd, hlýju og umhyggju í mun meiri mæli en áður. Alla þessa eiginleika er hægt að sýna á tímum þar sem fólki er sagt að halda fjarlægð frá öðrum. Um leið er þetta falleg baráttuaðferð á erfiðum tímum. Hún sigrar ekki kórónaveiruna en gerir veröldina þó aðeins betri og notalegri. Og við þurfum á því að halda.
Birtist fyrst í Fréttablaðinu.