Gómsætar smákökur með kókos og haframjöli

Við fengum matgæðinginn Hildi Rut Ingimarsdóttur til að deila með okkur sinni uppáhalds jólasmáköku uppskrift fyrir aðventuna. Hildur Rut hefur mikla ánægju að því að elda og baka og nýtur sín í eldhúsinu. „Mér finnst mjög jólalegt að baka smákökur á aðventunni og þá finnst mér gaman að prófa eitthvað nýtt í bland við gamalt og gott. Það er þrennt sem mér finnst ómissandi að baka en það eru einfaldar smákökur með haframjöli og kókos. Ég ætla að deila með ykkur þeirri uppskrift. Svo er ég vön að baka Sörur með systur minni og að lokum þá er fjölskylduhefð að baka hafrakex. Amma mín bakaði alltaf hafrakex fyrir jólin og núna er það ómissandi hefð. Svo borðar fjölskyldan þetta í morgunmat á aðventunni með smjöri og osti.“

FB-Ernir201119-Hildur-04.jpg

Mæðgurnar Hildur Rut og Edda Vilhelmína njóta sín saman við baksturinn.

Heldur í hefðirnar og baka á aðventunni

Hildur Rut er heldur mikið í aðventu- og jólahefðir þegar kemur að bakstri. “Mamma mín bakaði þessa uppskrift alltaf fyrir jólin síðan ég man eftir mér. Ofur einfaldar í bígerð og kláruðust alltaf strax. Oft bökuðum við þessar smákökur mörgum sinnum yfir aðventuna.“ Aðspurð segist Hildur baka mikið fyrir jólin. „Ég baka alveg heilan helling fyrir jólin. Bæði bý ég til og prófa nýjar uppskriftir að smákökum ásamt því að baka það sem ég er vön að baka. En mér finnst skemmtilegast að baka með börnunum mínum. Það sérstaklega jólalegt að halda í hefðirnar og baka á aðventunni.“

Mikið jólabarn

Hildur Rut er mjög hrifin af þessu árstíma og nýtur þess að vera með fjölskyldunni í aðventunni. „Mér finnst skemmtilegast að eiga dásamlegar stundir með fjölskyldunni minni og vinum. Kertaljós, bakstur, skreyta, jólamyndir, jólalög og reyna að njóta þess í botn. Það má alvega segja að ég er mikið jólabarn.“

Smákökur með kókos og haframjöli

100 g smjör

3 dl haframjöl

1 ¼ dl kókosmjöl

1 ½ dl sykur

1 egg

1 tsk. lyftiduft

1 msk. hveiti

suðusúkkulaði

Aðferð:

  1. Bræðið smjörið. Hellið því yfir haframjölið og hrærið saman.
  2. Blandið kókosmjöli, sykri, eggi, lyftidufti og hveiti saman við. Hærið vel saman.
  3. Dreifið deiginu með teskeið á bökunarplötu þakta bökunarpappír (passið að dreifa ekki mjög þétt).
  4. Bakið við 190°C í u.þ.b. 5 mínútur. Kælið.
  5. Bræðið súkkulaðið í skál yfir vatnsbaði og penslið botninn á kökunum.
  6. Geymið á köldum stað og njótið.

*Allt hráefnið í baksturinn fæst í versluninni Bónus.