Gómsætar edamame baunir með chilli pipar og hvítlauk sem gestirnir missa sig yfir

Edamame baunir eru einstaklega ljúffengar einar og sér og líka sem meðlæti með hinum ýmsu réttum. Sérstaklega með Suður- amerískum mat og asískum mat. Sjöfn Þórðar hefur verið iðin við að prófa sig áfram með Edamame baunirnar og hafa þær slegið í gegn hjá matargestum.  Þær er einnig hægt að bera fram sem forrétt og á smáréttarhlaðborð.  Kosturinn við Edamame baunirnar er að þær eru bæði hollar og ljúffengar, stútfullar af próteini og henta mörgum meðal annars þeim sem eru vegan og á ketófæði. Baunirnar eru seldar frosnar í pokum í flestum matvöruverslunum landsins og því er kærkomið að eiga ávallt poka í frystinum sem hægt er að grípa í þegar galdra þarf fram sælkerarétt á augabragði.

 

Edamame baunir með chilli og hvítlauk að hætti Sjafnar

1 poki frosnar Edamame baunir (yfirleitt 500g)

3-4 hvítlauksrif smátt söxuð

2 stk. ferskur chilli pipar saxaður

2 tsk. svartur pipar úr kvörn

2 tsk. chilli krydd

gróft Himalaya saltflögur eftir smekk

ólífuolía til steikingar

Byrjið á því að setja vatn í pott og sjóða. Þegar suðan er komin upp hellið Edamame baununum í vatnið og stráið örlitlu  Himalaya saltflögum yfir og látið sjóða í um það bil 3 mínútur. Hellið vatninu af baununum gegnum sigti. Hitið pönnu með ólífuolíu á góðum hita. Þegar ólífuolían er orðin heit setjið þá saxaða hvítlaukinn og chilli piparinn út í olíuna og steikið þar til hvítlaukurinn og chilli piparinn eru orðnir mjúkir. Bætið þá baununum við og leyfið þeim að malla aðeins saman við. Kryddið í lokin með chilli kryddinu, svörtum pipar og grófum  Himalaya saltflögum.

Edamame baunir eru bornar fram á skemmtilegum disk eða fati. Baunirnar eru borðaðar innan úr belgnum og belgnum síðan hent. Því er oft gott að hafa sér disk til hliðar fyrir belginn.  Einnig er gaman að bera þennan rétt fram með prjónum og skreyta með heilum chilli pipar og limebátum.

Hægt er að gera þennan rétt enn saðsamari með því að setja Hoisin sósu út í, um það bil 5 matstkeiðar þegar baunirnar eru að malla á heitri pönnunni. Ég vel þá Stokes Hoisin sósuna sem fæst í Hagkaup þar sem hún er einstaklega góð í matargerð, bragðið er ljúft undir tönn og á vel við.

Njótið vel.