Það vakti athygli fyrr í vikunni að ráðherrafundur Norðurskautsráðsins náði ekki samstöðu um pólitíska yfirlýsingu um loftslagsmál. Bandaríkin komu í veg fyrir að þau yrðu nefnd á nafn. Þessi niðurstaða þurfti ekki að koma á óvart. Einstefna Bandaríkjanna í þessum efnum hefur legið fyrir um tíma. Hún hefur áhrif á allt alþjóðlegt samstarf sem þau taka þátt í. Þetta er í raun bara lítið dæmi.
Að því leyti er þessi uppákoma í Norðurskautsráðinu ekkert sérstök. Og væntanlega hefur hún lítil sem engin áhrif á hefðbundið og fastmótað starf ráðsins á mörgum mikilvægum sviðum. En á hinn bóginn er ekki unnt að loka augunum fyrir því að það veikir Norðurskautsráðið og aðildarríki þess pólitískt að geta ekki á þessum örlagatímum í loftslagsmálum talað skýrt og opið til umheimsins um þau efni með þeim þunga sem felst í sameiginlegum yfirlýsingum ráðherra.
Hlýnun er tvöfalt hraðari á norður slóðum en annars staðar. Hafi einhver fjölþjóðasamtök ástæðu til að brýna baráttuna gegn hlýnun jarðar með skýrum pólitískum yfirlýsingum er það Norðurskautsráðið. En Bandaríkin loka fyrir það. Þar við situr. Þó eru lífshagsmunir í húfi.
Þessi framganga Bandaríkjanna í Norðurskautsráðinu hefur ekkert með formennsku Íslands að gera. En það vekur okkur ef til vill fremur til umhugsunar um þessa nýju utanríkispólitísku vegferð Bandaríkjanna að forsætisráðherra átti sérstakan fund með utanríkisráðherra Bandaríkjanna um loftslagsmál í aðdraganda ráðherrafundarins.
Í Norðurskautsráðinu sitja með Bandaríkjunum fjórar aðrar aðildarþjóðir í Atlantshafsbandalaginu. Áður fyrr voru pólitísku tengslin milli aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins svo sterk að nær óhugsandi hefði verið að forysturíkið hefði hunsað önnur aðildarríki með þessum hætti þegar þau skilgreindu mál eða viðfangsefni sem lífshagsmuni sína.
Kjarni málsins er sá að Bandaríkin leggja nú minna upp úr að mynda bandalög með öðrum ríkjum á grundvelli sameiginlegra hugsjóna og hagsmuna. Þau kjósa fremur að knýja sjónarmið sín fram í krafti stærðar sinnar í tvíhliða samskiptum um einstök viðfangsefni. Öflugasta ríki í heimi hefur alltaf síðasta orðið ef hin sérstöku tengsl hugsjóna og hagsmuna eru ekki til staðar í fjölþjóðlegri samvinnu.
Loftslagsmálin eru bara eitt af dæmunum um þessa breytingu. En veruleikinn að baki henni er sá að gömlu sérstöku tengslin eru að trosna. Þau eru ekki horfin. Það er bara ekki sama pólitíska hald í þeim og áður. Atlantshafsbandalagið verður áfram mikilvægt fyrir Evrópu. Ísland hefur þar að auki sérstakan varnarsamning við Bandaríkin. Við eigum að halda áfram að rækta þetta samband. En við þurfum augljóslega einnig að leita nýrra leiða á ýmsum sviðum til að treysta pólitískt skjól og hagsmuni landsins.
Augljóst er til að mynda að Norðurlönd þurfa að styrkja pólitískt samstarf sitt innan Evrópusambandsins í loftslagsmálum. Ísland getur ekki litið framhjá því hvar það tryggir best hagsmuni sína í fjölþjóðasamskiptum á svo mikilvægu málasviði.
Það er ekki mikill ágreiningur að því er virðist milli stjórnmálaflokka í loftslagsmálum. En við þurfum að ná breiðari samstöðu en verið hefur um virkara pólitískt samstarf með þeim þjóðum sem stefna að sama markmiði. Það verður einfaldlega ekki byggt á veruleika liðins tíma.