Góðar fréttir fyrir fúllynda!

Við Íslendingar eigum málshátt sem hljóðar svo: Hláturinn lengir lífið.

En það er víst bull.

Fýlupokar geta að jafnaði búist við að lifa nákvæmlega eins lengi og glaðsinna fólk. Þetta leiðir ný rannsókn í ljós.

Rannsóknin var gerð á breskum konum og er gerð grein fyrir niðurstöðum í nýjasta tölublaði læknaritsins Lancet. Þar kemur fram að til þessa hafi verið talið samband milli langlífis og hamingju en e.t.v. hafi verið litið framhjá því að óhamingja geti verið afurð af vondri heilsu. Sannarlega er góð heilsa leiðin að langlífi fremur en stuttlífi eins og ekki þarf að skýra frekar.

Með nýju rannsókninni sem gerð varð á einni milljón breskra kvenna árin 1996 til 2001 en síðan hafa dauðsföll kvennanna verið tengd við svör sem fengust þegar spurningalisti var lagður fyrir konurnar, hafi enginn munur greinst á lífaldri kvenna sem sögðust hamingju- eða óhamingjusamar.

Það voru vísindamenn við Oxford-háskóla sem unnu rannsóknina.

Richard Peto, prófessor í læknisfræði segir: „Góðar fréttir fyrir fúllynda.“