Góð reynsla af miðju-og hægri stjórnum á ísland

Verði af stjórnarmyndun Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar, þá kemst á ríkisstjórn miðju-og hægriflokka á Íslandi í fyrsta skipti í rúm tuttugu ár.
 
Mikið hefur verið reynt að hengja á þessa stjórnarhugmynd þann merkimiða að um sé að ræða mestu hægri stjórn sem um getur á Íslandi frá stofnun lýðveldisins árið 1944.
 
Þetta er einfaldlega rangt og væntanlega sagt í þeim tilgangi einum að reyna að spilla fyrir. Það mun ekki takast ef mál eru metin með réttum og eðlilegum hætti.
 
Skoðum í því ljósi hvar flokkarnir sjö, sem nú eiga fulltrúa á Alþingi, eru staðsettir í litrófi íslenskra stjórnmála:
 
  • Lengst til hægri er Framsóknarflokkurinn. Hann sýndi á nýliðnu kjörtímabili að hann er hreinn hægriflokkur, nánast hægri öfgaflokkur á köflum. Miðju-og samvinnuhugsun flokksins er löngu liðin tíð. Ekki þarf annað en benda á Vigdísi Hauksdóttur sem dæmi um þetta. Hún sýndi í verkum sínum og málflutningi að hún er sá stjórnmálamaður á Íslandi sem er lengst til hægri. Þó hún sé hætt á þingi, alla vega í bili, þá er hún eitt af helstu andlitum Framsóknarflokksins og var mjög áberandi á kjörtímabilinu sem formaður fjárlaganefndar. 
  • Sjálfstæðisflokkurinn er vitanlega hægri flokkur og hefur aldrei farið dult með það. Á árum áður teygði hann sig lengra inn á miðjuna, á meðan menn eins og Gunnar Thoroddsen og Albert Guðmundsson höfðu áhrif, en í seinni tíð hefur hann færst lengra til hægri.
  • Viðreisn er miðju-og hægri flokkur. Stefnuskrá flokksins er alveg skýr hvað það varðar. Stefna Viðreisnar er blanda að því sem frjálslyndari sjálfstæðismenn og hægri kratar aðhyllast.
  • Björt framtíð er á svipuðum slóðum og Viðreisn en þó vissulega vinstra megin við flokkinn. Klárlega miðjuflokkur sem getur litið bæði til hægri og vinstri.
  • Samfylkingin var á svipuðum slóðum og Viðreisn og Björt framtíð eru núna – þar til Jóhanna Sigurðardóttir færði flokkinn lengra til vinstri og allt of nálægt Vinstri grænum með skelfilegum afleiðingum fyrir Samfylkinguna sem hefur í tvennum kosningum tapað 17 þingmönnum, farið úr því að vera fjölmennastur á þingi með 20 fulltrúa niður í þrjá eins og nú er.
  • Vinstri grænir eru sósíalistaflokkur – kommaflokkur eins og Heimdellingar segja – og ávalt samur við sig þó stundum þyki henta að skipta um nafn og kennitölu. Gildir einu hvort flokkurinn heitir VG, Alþýðubandalagið, Sósíalistaflokkur eða eitthvað annað. Grunngildin eru ávalt hin sömu; gamall og hreinræktaður sósíalismi. Allt gott um það að segja svo lengi sem menn láta ekki blekkjast af málflutningi þeirra.
  • Náttfari treystir sér ekki til að staðsetja Pírata í þessu pólitíska landslagi. Hann veit ekki hvort um stjórnmálaflokk er að ræða eða hvort Píratar eru eins konar ungmennafélag, málfundafélag eða samkomustaður fyrir fólk með öðruvísi hugmyndir en flestir. Að sönnu eru innan vébanda Pírata margir glöggir og gegnir einstaklingar. En hvort þeir eiga erindi í stjórnmál hér á landi skal ósagt látið.
Í ljósi alls þessa er því haldið fram að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og BF verði miðju-og hægristjórn.
 
Því er einnig haldið fram að fráfarandi ríkisstjórn Framsóknar og Sjálfstæðisflokks hafi verið hrein hægri stjórn eins og verkin sýna svo ekki verður um villst.
 
Ríkisstjórn Davíðs Oddssonar og Jóns Baldvins Hannibalssonar, sem var við völd frá 1991 til 1995, var að sönnu miðju-og hægri stjórn. Hún reyndist mjög vel. Sú ríkisstjórn leiddi Ísland inn í EES, hún tók stór skref til að vinda ofan af sjóðasukkinu sem vinstri stjórn Steingríms Hermannssonar innleiddi og undir forystu hennar hófst farsælt hagvaxtarskeið á Íslandi. Þessi ríkisstjórn sat út kjörtímabilið þrátt fyrir nauman meirihluta. Dómur sögunnar um þessa stjórn getur ekki orðið annar en sá að þessi miðju-og hægri stjórn hafi reynst þjóðinni vel.
 
Til að finna næstu farsælu miðju-og hægri stjórn á Íslandi, þarf að fara aftur til Viðreisnarstjórnarinnar sem sat frá árinu 1959 til 1971 og er almennt talin besta ríkisstjórn Íslandssögunnar. Sú ríkisstjórn afnam gjaldeyrishöft og skömmtun á flestum sviðum og færði Ísland inn í nútímann með ýmsum hætti. Viðreisnarstjórninni tókst að stýra þjóðinni í gegnum mikla kreppu árið 1968 þegar aflabrestur og verðfall afurða dundi yfir. Viðreisnarstjórnin var mynduð af Sjálfstæðisflokki og Alþýðuflokki. Viðreisnarstjórnin sat samfellt í þrjú kjörtímabil og hafði nauman meirihluta allan tímann. Hún var vissulega farsæl miðju-og hægri stjórn.
 
Síðustu 57 árin hafa einungis þessar tvær farsælu miðju-og hægri stjórnir verið við völd á Íslandi. Og þær hafa báðar reynst vel. Sömu sögu er ekki hægt að segja um ríkisstjórn Geirs Haarde og Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur sem mynduð var vorið 2007 og fór frá völdum í ársbyrjun 2009. Enda voru aðstæður þá með þeim hætti að ekki er sanngjarnt að dæma um verk þeirrar stjórnar sem mætti efnahagskreppu á Vesturlöndum sem bitnaði einkar illa á Íslendingum án þess að ríkisstjórnin hafi getað ráðið við það.
 
Aðrar ríkisstjórnir sem setið hafa á Íslandi síðustu 57 árin hafa annað hvort verið vinstri stjórnir eða þá hægri stjórnir Sjálfstæðisflokks og Framsóknar.
 
Komist miðju-og hægristjórn á að þess sinni, er full ástæða til bjartsýni hér á landi.