Með hækkandi sól fylgja ýmis veisluhöld, fermingarveislur, útskriftarveislur og brúðkaup svo dæmis séu tekin. Við höfum tekið saman góð ráð sem ber að hafa í huga þegar veitingar í veisluna eru undirbúnar. Þegar veislu skal halda þarf fyrst af öllu að ákveða hvort þetta á að vera sitjandi borðhald, tví- eða þrírétta veislumáltíð, óformlegra matarboð eða garðveisla, smáréttahlaðborð, ítölsk brauðveisla, standandi kokteilboð með pinnamat, dögurður eða kökuhlaðborð á gamla mátann.
Einfaldleikinn stendur ávallt fyrir sínu
Ef það er mikill fjöldi að koma í veisluna er vert að hafa í huga að margrétta matarveislur þurfa ekki að vera flóknar. Ef ætlunin er að vera með þrírétta veislumáltíð væri til dæmis hægt að fara þessa leið. Hægt er að bjóða uppá einfaldan forrétt , hvort sem hann er keyptur tilbúinn eða heimalagður og oft er gott að velja klassískan rétt sem er skotheltur. Sjávarétti eins og graflax, reyktan lax með tilheyrandi meðlæti, gamaldsdags rækjukokteil, ljúffenga heimalagða súpu með súrdeigsbrauði eða jafnvel yndisauka borin fram með fallegum hætti. Aðalrétturinn gæti verið góð steik eins grillað lambalæri, ofnbakað lambalæri, nautalund eða roastbeef sem krefst ekki of mikillar fyrirhafnar og er einstaklega gott hráefni sem flestum líkar. Í eftirrétt mætti hafa ljúffengt sorbet sem hægt er að bera fram í fallegri eftirréttaskál eða háu glasi, heimalagaðan ís með ferskum ávöxtum eða kaupa ís frá vel völdum aðilum og bjóða uppá. Einnig er hægt að vera með hnallþóru sem hægt er að panta, bollakökur eða jafnvel sæta bita sem eru mikið augnakonfekt eins og súkkulaði hjúpaðir ávextir, makkarónur svo dæmi séu tekin. Glæsilegir ávaxtabakkar eru líka mjög vinsælir í dag. Fjölmörg fyrirtæki og veisluþjónustur bjóða upp á glæsilega og fjölbreytta eftirrétti sem auðvelda okkur fyrirhöfnina.
Standandi kokteilboð eru heillandi
Það getur verið mjög skemmtilegt og líka þægilegt að vera með standandi kokteilboð eða smáréttahlaðborð sem leiða gjarnan til þess að gestirnir fara meira á milli manna. Þegar veitingar fyrir slík boð eru framreiddar er mikilvægt að vera ekki með of mikið tegundum og einnig ber að varast að vera með rétti sem eru mjög fyrirhafnarsamir og tímafrekir í undirbúningi. Besta er að velja fáa rétti og hafa mikið af hverjum og einum þeirra. Úrvalið af veitingum sem hægt er að velja í kokteilboð eru óþrjótandi. Hér eru nokkur dæmi um samsetningar og þema sem hægt væri að bjóða uppá, ítalskt smáréttaboð með súrdeigsbrauðum, pestói, hummus, ólífum, krydduðum pylsum, parmaskinku, melónu og brauðstöngum, ídýfum og ítölskum ostum. Einnig er hægt að vera með blandað sushi hlaðborð, bæði með hráu og óhráu hráefni. Gamla góða kokteilsnittuhlaðborðið er ávallt vinsælt og hægt er blanda ýmsu smáréttum með því eins og litlum kjötbollum, kjúklingaspjótum, nautaspjótum, sætu bitum og ferskum ávöxtum og niðurskornu fersku grænmeti. Leyfa hugmyndafluginu að reika og prófa sig áfram. Einnig er vinsælt að vera með smáborgara og pítur af ýmsu tagi, hvort sem það er nautaborgari, humarborgari eða kjúklingaborgari.
Dögurður móðins í dag
Mjög vinsælt er að fara í dögurð í dag og hægt er að vera með margs konar veitingar þegar boðið er uppá dögurð. Þá er einnig hægt að vera með þrírétta máltíð. Byrja á léttmeti, eins og grísku jógúrti, músli og ávöxtum, eða sjávarfangi og síðan er hægt að fara í hina ýmsu eggrétti. En hægt er að matreiða egg á svo margvíslegan og skemmtilegan hátt með ljúffengu meðlæti. Má þar meðal annars nefna hin sívinsæla rétta Egg Benedict sem hægt er að framreiða á marga vegu. Meðal annars með avacado, reyktum laxi eða beikoni. Hollandissósan settur punktinn fyrir i-ið. Svo er hægt að vera með alls konar meðlæti, steiktar kartöflur, grænmeti, litlar kokteil pylsur svo dæmi séu tekin. Loks eru það lokkandi réttirnir, mini pönnukökur með nutella og ferskum ávöxtum, eða amerískar pönnukökur með hlynsírópi. Hægt er að bjóða uppá allt það sem bragðlaukarnir girnast.
Hve mikið á mann þarf í veisluna?
Kúnstin er að vera ekki með of margar tegundir, því fleiri tegundir sem boðið er uppá því meira borða gestirnir. Af því að þeim langar að sjálfsögðu að smakka á sem flestu. Vandið því samsetninguna vel og hafið frekar færri tegundir og meira af hverri. Þá verður enginn svangur. Til dæmis væri lag ef um kökuhlaðborð er að ræða gæti verið hæfilegt að vera með brúðkaups-, fermingar- eða aðra hátíðartertu og/eða kransaköku, tvær til þrjár ólíkar tegundir, og jafnvel bjóða uppá brauðrétti, annars vegar heita og kalda. Best er að reikna með tveim til þrem tertusneiðum á mann en meðalstór terta er yfirleitt 12 til 14 sneiðar. Vanalega er miðað við einn skammt ef brauðrétt á mann. Á smáréttahlaðborði eða kokteilpinnaboði er hægt að miða við sex til átta mismunandi rétti, kalda eða heita. Þá má reikna með að hver og einn gestur fái sér 2-3 bita af hverri tegund. Þegar boðið er uppá sitjandi borðhald með hátíðarmat reiknum við með 180 – 200 g af beinlausu kjöti á mann. 240 – 300 g ef kjötið er með beini og um 250 g af meðlæti eins og kartöflum, salati og sósu.
Mikilvægastur er undirbúningurinn
Þegar veislu skal gjöra er undirbúningurinn mikilvægastur, því betur sem undirbúningurinn er því auðveldari verður framkvæmdin. Fyrst af öllu þarf að taka ákvörðun um hvort aðföngin verða keypt tilbúin af veisluþjónustu eða hvort farið verður út í það að vera með heimalagaðar veitingar. Þegar um er að ræða heimalagaðar veitingar er brýnt að forgangsraða og byrja á því sem hægt er sem fyrst. Sumt má gera með löngum fyrirvara og frysta. Þetta gildi um flesta tertubotna og margar fullskreytar hnallþórur, kökur, makkarónur, sörur og fleira. Einnig á þetta við litla smárétti eins og kjötbollur, fiskbollur, vatnsdeigsbollur, brauð og ýmsa brauðrétti svo dæmis séu tekin. Einnig er hægt að gera alls konar sósur, ídýfur og pestó með einhverjum fyrirvara og tryggja réttu geymsluaðferðina. Einnig eru margir réttir sem hægt er að gera daginn áður og geyma á köldum stað. Um fram allt er að tryggja gæðin og vanda til verka til að veisluaðföngin haldi ferskleika sínum og gestirnir njóti þeirra þegar að veislu kemur. Ef veisluaðföngin á að kaupa að utan aðkomandi er mikilvægt að panta þær með góðum fyrirvara og fara vel yfir það sem á að panta. Gátlisti yfir veitingar er mikilvægur og muna þarf eftir drykkjarföngum og para drykkjarföngin við þeir veigar sem bjóða á uppá.
Myndir Eva Björk ljósmyndari