Nú líður senn að því smákökubaksturinn verður kominn á fullt á mörgum heimilum og margir baka smákökurnar fyrir aðventuna til að geta boðið uppá ljúffengar smákökur með kaffinu og heitu súkkulaði í aðventunni. Við lummum á nokkrum góðum ráðum sem vert er að hafa í huga þegar kemur að smákökubakstrinum.
Þegar þú ætlar að mylja sætindi í kökudeig eða krem, eins og súkkulaði, karamellur eða önnur sætindi er auðveldasta að gera það ef sætindin eru fryst í 20 til 30 mínútur áður en það er mulið.
Þegar þú ert að baka mikið af smákökum er best á láta bökunarplöturnar kólna áður en nýr skammtur af deigi er settur á þær. Annars getur deigið runnið of mikið út og smákökurnar verða flatar.
Þegar þú ert að setja smákökudeig á bökunarplötu er mikilvægt að hafa deigið í jöfnum hlutföllum, annars er hætt við því að smákökurnar bakist ójafnt og þær minnstu verði of dökkar áður en þær stærri verða fullbakaðar. Til að súkkulaðibitakökur eða aðrar smákökur verði jafnstórar og reglulega lagðar er tilvalið að nota litla ísskeið eða teskeið til að setja deigið á plötuna.
Þegar smákökur eru bakaðar á teflonhúðuðum plötum brúnast þær oftast hraðar en á öðrum bökunarplötum. Ef þú notar slíkar plötur er ráðlagt að lækka hitann á ofninum um 10 til 15°C gráður svo að botninn á smákökunum brenni ekki.
Þegar þú ert að prófa nýja uppskrift, sem þú hefur ekki gert áður er brýnt að þú fylgist mun betur með en ella og lítir í ofninn af og til áður en kakan/kökurnar eiga að vera tilbúnar. Ofnar geta verið mjög misjafnir og það gildir ekki sami bökunartími fyrir þá alla. Einnig er mikil munur á venjulegum ofni og blástursofni. Vert er að hafa það í huga á þó tíminn hafi verið réttur hjá þeim sem samdi uppskriftina getur þín kaka/kökur þurft styttri eða lengri tíma. Þetta á sérstaklega við þegar smákökur eru bakaðar.
Þegar smákökur eru teknar úr ofninum skaltu taka smákökurnar strax af plötunni með spaða og setja þær á grind og láta þær kólna nema annað sé tekið fram í uppskriftinni.
Gangi ykkur vel í jólabakstrinum.