Ekki er að spyrja að djúpviskunni og þekkingunni þegar Jón lögmaður Magnússon fer að tjá sig um lífeyrissjóðina. Hann á það til að rjúka upp eins og hundarnir í sveitinni þegar bíll keyrir framhjá ef hann heyrir eitthvað neikvætt um lífeyrissjóði. Líkt og hundarnir gelta alltaf eins er gjammið hjá blessuðum lögmanninum sorglega einhæft.
Jón náttúrlega síendurtekur bábiljuna um að lífeyrissjóðirnir hafi „tapað“ 500 milljörðum í hruninu. Reyndar varð tjón þeirra í hruninu 380 milljarðar (20% af eignum), en hvað munar svosem um 120 milljarða í svona umræðu!
Og ekki lætur hann það heldur trufla sig að lífeyrissjóðirnir voru einu fjármálastofnanir landsins sem stóðu af sér hrunið!
En – áfram skal haldið úti sömu bábiljunum ár eftir ár, en stundum geta kjöftugir skotið sig í fótinn. Jón segir í Facebook-skilaboðum til formanns Verkaklýðsfélags Akraness:
„Fólkið í landinu hefur ekki enn áttað sig á þeirri ríku ábyrgð sem stjórnendur lífeyrissjóðanna bera á Hruninu, en þeir voru nánast einu aðilarnir sem komu með raunverulega fjármuni inn í Matadorleik bankabarónanna og útrásarvíkinganna.“
Það var og!
Einu raunverulegu peningarnir og Matadorleikur! Svo fjármálafyrirtækin, þessi sem féllu og tóku fleiri með sér, voru þá ekki með raunverulega peninga og í Matadorleik í ofanálag! Hvernig komust þessir kújónar upp með það? Var ekki hérna fljúgandi virkt og öflugt Fjármálaeftirlit (FME) sem átti að koma í veg fyrir svoleiðis nokkuð?
Kannski Jón ætti að líta sér nær í skýringum sínum í ljósi þess að sonur hans Jónas Friðrik Jónsson var forstjóri FME í hruninu.
Já! Sérfræðingarnir leynast hér og þar. Einn enn belgdi sig út í vikunni og á sá nú ýmislegt til þegar kemur að því að fella dóma um flókin mál. Mesta furða að sá djúpvitri spekingur skuli ekki vera milljarðamæringur eins og hann hefur gríðarlega mikla þekkingu á fjármálamarkaði og starfsemi lífyrissjóða.
Hér er auðvitað átt við sérfræðinginn mikla, Egil Helgason, sem setur sig aldrei úr færi að hreyta ónotum í þá sem ekki fara í öllu að hans vilja eins og að sleppa honum við að greiða lögboðin iðgjöld sín í lífeyrissjóð.
Af-því-bara rökin duga kannski í spjalli án ábyrgðar í sjónvarpssal, en illa endast þau í tilhæfulausum fullyrðingum byggðum á vanþekkingu og kunnáttuleysi í bland við illvilja.
Líklega færi Agli það best að halda sig við lauslegt bókmenntarabb og labbitúra með sagnfræðiarkitektum.
Rtá