Gleymdi Þorkell formanninum, Benedikt Sveinssyni?

Þorkell Sigurlaugsson, fyrrum stjórnandi hjá Eimskip á tímum Kolkrabbans, er kominn í prófkjörsbaráttu hjá Sjálfstæðisflokknum í Reykjavík. Mikill skjálfti er hlaupinn í frambjóðendur þótt enn séu fjórar vikur til stefnu fram að prófkjöri. Mörg dæmi mátti sjá um það í aðsendum greinum í Morgunblaðinu í dag, fimmtudag. Á fimmtudögum er frídreifing á vissum svæðum, en almenn dreifing blaðsins er annars um 10 þúsund eintök.

Þorkell frambjóðandi gerir í Mbl-grein mikið úr því að fyrirtækið Marel hafi ekki fengið stóra lóð í Reykjavík á árunum eftir 1990 og vill kenna R-listanum um. Þorkell lætur þess einnig getið að hann hafi átt sæti í stjórn Marels í kringum síðustu aldamót. Hann bætir því við að nú sé Marel verðmætasta fyrirtækið á Kauphöll Íslands og með 7.000 manns í vinnu. Þó að hann segi það ekki, er undirliggjandi að allt sé það nú frambjóðandanum að þakka.

Þetta er svolítið pínlegt þegar á allt er litið og sýnir hvernig mætasta fólk missir sig þegar í harða og erfiða prófkjörsbaráttu er komið. Hér skal alls ekki gert lítið úr Þorkatli og miklum störfum hans, bæði í atvinnulífinu, Sjálfstæðisflokknum – og öðrum flokkum – þegar þannig hefur staðið á.

Þorkell gerir að umtalsefni að fyrirtækið Marel hafi fengið stóra lóð í Garðabæ sem er satt. Gerir svo mál úr því að lóðin hafi ekki fengist í Reykjavík og kennir „vonda“ R-listanum um. Eflaust hentar þetta vel í prófkjörsbaráttu Sjálfstæðisflokksins, ef enginn kann skil á raunverulegri sögu og staðreyndum málsins.

Þorkell átti sæti í stjórn Marels um skeið á meðan Eimskip átti stóran hlut í fyrirtækinu. Þá var Marel með nokkur hundruð manns í vinnu og var gott þróunarfyrirtæki á réttri leið. Allt er gott um það að segja. Þá var Marel ekki orðið sjö þúsund manna risafyrirtæki eins og nú er – algerlega án aðkomu frambjóðandans að þeim mikla uppgangi sem orðið hefur á þessari öld, frá því að Þorkell hvarf úr stjórn Marels.

Þorkell Sigurlaugsson hefði átt að láta þess getið varðandi ofangreint lóðamál að Marel hafði átt í samtölum við borgaryfirvöld á valdatíma Sjálfstæðisflokksins og héldu þau áfram eftir að R-listinn tók við. Slíkum viðræðum var hins vegar ýtt kurteislega út af borðinu þegar stjórnarformaður Marels, sem einnig var stjórnarformaður Eimskips, sem átti stóran hlut í Marel, tók af skarið og valdi lóð í Garðabæ.

Frambjóðandinn virðist vera búinn að gleyma því að þessi sami maður, Benedikt Sveinsson, var einnig formaður bæjarráðs í Garðabæ og sá sem öllu réði þar. Hann vildi Marel í Garðabæ og fékk sitt fram. Þurfti hvorki góða né vonda stjórnmálamenn í Reykjavík til þess. Benedikt ákvað það – eins og allt annað á þeim tíma. Benedikt Sveinsson er faðir Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins.

Þetta ætti Þorkell að vita, enda einn þeirra sem sinnti erindum fyrir hann.

- Ólafur Arnarson