Gleðifréttir að dr. ásgeir jónsson taki við seðlabanka íslands

Það er sannarlega full ástæða til að gleðjast yfir því að dr. Ásgeir Jónsson hafi verið skipaður næsti bankastjóri Seðlabanka Íslands. Hann tekur við starfinu þann 20. ágúst þegar Már Guðmundsson hættir. Forsætisráðherra skipar formlega embættið. Mikill átök hafa verið innan ríkisstjórnarinnar um skipan í þetta embætti. Vinstri grænir vildu fá dr. Gylfa Magnússon í starfið enda er hann fyrrverandi ráðherra í hinni illræmdu vinstri stjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og sat þar við hlið Steingríms J., Katrínar og Svandísar Svavarsdóttur. Gylfi hefur ítrekað sýnt að hann er langt til vinstri í hinu pólitíska litrófi. Menn muna alveg öfgafulla ræðu sem hann flutti á Austurvelli skömmu eftir hrun og sitthvað fleira sem hann hefur látið frá sér fara. Það var hann sem taldi að Ísland gæti orðið Kúba norðursins og hafa margir viljað uppnefna hann „Kúbu-Gylfa“ eftir það. Formenn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar gátu ekki hugsað sér að samþykkja Gylfa sem næsta bankastjóra Seðlabanka Íslands. Katrín varð að beygja sig undir vilja þeirra og sættast á annan mann sem þó uppfyllti algerlega allar kröfur um menntun, reynslu og hæfni. Sátt náðist um Ásgeir. Þeir sem þekkja til hans eru sannfærðir um að þarna hafi tekist að velja frábæran mann. Því ber að fagna.

 

Í umsögn um Ásgeir kom m.a. fram að hann væri „skarpgreindur, víðsýnn, afkastamikill, ritfær, frjór í hugsun, mannasættir og góður í mannlegum samskiptum.“ Varla er hægt að biðja um mikið meira!

 

Ásgeir er alþjóðlega sinnaður og jákvæður gagnvart Evrópusambandinu og erlendum gjaldmiðlum. Hann er laus við allan heimóttaskap enda hámenntaður erlendis. Með slíkum manni í þessari valdamiklu lykilstöðu er hægt að vænta þess að umræða um gjaldmiðlamál Íslendinga og samskipti við umheiminn lyftist á hærra plan en verið hefur hin síðari ár.

 

Hringbraut.is skýrði frá því í gær, fyrst allra fjölmiðla,  að mestar líkur væru á að Ásgeir yrði fyrir valinu.