Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, mætti í Silfrið í gær og talaði fyrir lækkun á hlutabréfamarkaði. Þegar hann lét þessi orð falla voru farnar að berast fréttir af lækkunum í Asíu vegna tiltekins gjaldþrotamáls.
Ekki þarf mikinn spámann til að átta sig á því að þegar verð hlutabréfa hefur hækkað mikið í nokkurn tíma séu líkur á að einhver hliðrun komi á móti. Verðbréfa- og raunar allir markaðir eru þeirrar náttúru að sveiflur geta orðið.
Meðal þess sem getur valdið sveiflum á mörkuðum og magnað þær upp er upplýsingastreymi. Með upplýsingastreymi til markaða er venjulega vísað til atriða á borð við afkomutölur, verðbólguspár, vaxtaákvarðanir, þróun og horfur á öðrum mörkuðum og fleiri þætti sem eru áþreifanlegir og varða rekstraumhverfi fyrirtækja og horfur á markaði. En fleira kemur til. Orðrómur getur haft mikil áhrif, hvort sem hann byggður á staðreyndum eða úr lausu lofti gripinn. Einnig yfirlýsingar áhrifamanna, eins og Ragnar Þór óneitanlega er sem skuggastjórnandi eins stærsta lífeyrissjóðs landsins.
Ragnar Þór Ingólfsson hefur beitt sér sem formaður VR til að hafa áhrif á fjárfestingaákvarðanir fulltrúa félagsins í stjórn Lífeyrissjóðs verslunarmanna. Hann hefur í raun komið fram sem skuggastjórnandi í lífeyrissjóðnum þar sem orð hans höfðu áhrif – komu meðal annars í veg fyrir þátttöku lífeyrissjóðsins í hlutafjárútboði Icelandair. Í raun má segja að Ragnar hafi verið iðinn við að sá fræjum ótta og neikvæðni sem hafa vond áhrif á hlutabréfamarkaðinn hér á landi.
Vitanlega hefur gengi á erlendum mörkuðum áhrif á markaði hér á landi. Glannalegt er samt í meira lagi að spá hruni vegna þess að blikur séu á lofti erlendis. Mikill munur er á stöðu skráðra fyrirtækja hér á landi nú og í aðdraganda hruns 2008. Þá voru íslensk fyrirtæki almennt mjög skuldsett – upp í rjáfur kynni einhver að segja – bankarnir voru vaxnir íslenska ríkinu yfir höfuð og erlend skuldsetning banka og annarra fyrirtækja var gífurleg á sama tíma alþjóðlegir lánamarkaðir þornuðu upp á nánast einni nóttu og stórar erlendar fjármálastofnanir féllu hver um aðra þvera í kjölfarið. Þá varð hrun hér á landi – verra hrun en annars staðar – fyrst og fremst vegna ónýts gjaldmiðils og mikillar erlendrar skuldsetningar.
Staðan nú er önnur. Skuldsetning íslenskra fyrirtækja er mjög hófleg og eiginfjárstaða bæði rekstrarfélaga og fjármálastofnana er með því besta sem þekkist í heiminum. Þá eru íslensku bankarnir hvergi nærri eins háðir erlendri fjármögnun og þeir voru fyrir hrun. Skýringu á miklum hækkunum á íslenskum hlutabréfamarkaði er fyrst og fremst að finna í góðum rekstri fyrirtækja og hagræðingu í rekstri og má þar nefna sem dæmi Eimskip, Marel, bankana, Haga og Festi, en listinn er mun lengri.
Furðulegt er að formaður stærsta verkalýðsfélags landsins og skuggastjórnandi í lífeyrissjóði, sem þjónar 200 þúsund sjóðsfélögum, skuli stíga fram með þeim hætti sem hann gerði í gær. Skörp lækkun varð í Kauphöllinni í morgun. Orð Ragnars Þórs í Silfrinu hafa vissulega ekki hjálpað þótt fleira komi til En glannalegt tal manna sem áhrif hafa á markaðinn getur valdið miklum skaða. Nú reynir á hvort Fjármálaeftirlitið hefur kjark til að setja ofan í við áhrifamenn sem tala gáleysislega um jafn viðkvæm mál og hlutabréfamarkaðurinn er.
- Ólafur Arnarson