Þar sem Náttfara er ekkert mannlegt óviðkomandi, ætlar hann að minnast aðeins á handbolta að þessu sinni.
Lokið er þátttöku Íslands á heimsmeistaramótinu í handbolta sem fram fer í Egyptalandi. Árangur Íslands er sá lakasti á slíku móti frá upphafi. Ísland tapaði öllum stóru leikjunum með tveimur mörkum. Þannig töpuðust leikirnir gegn Portúgal, Sviss, Frakklandi og Noregi. Þessi lið gerðu einfaldlega það sem þau þurftu til að vinna Ísland og því var munurinn ekki meiri.
Ekki er gert lítið úr þeirri óheppni að hafa Aron Pálmarsson ekki með á mótinu en hann er meiddur. Mikið munar um hann. Það breytir ekki hinu að stór hópur landsliðsmanna leikur handknattleik með bestu liðum heims, sumir hafa verið atvinnumenn um árabil, jafnvel á annan áratug. Einungis þrír leikmenn spila með íslenskum liðum núna. Allir hinir eru atvinnumenn úti í Evrópu.
Frammistaða Íslands á mótinu hefur verið gagnrýnd hér á landi sem vonlegt er. Mest hefur verið tekið eftir ummælum Loga Geirssonar sem komið hefur fram sem sérfræðingur sjónvarpsins á mótinu. Logi er fyrrum atvinnumaður í handbolta og margreyndur landsliðsmaður. Þó hann geti stundum talað um þessi mál á galgopalegan hátt getur enginn efast um þekkingu hans og reynslu þegar kemur að handbolta.
Guðmundur Guðmundsson, þjálfari landsliðsins, fór því miður á taugum og missti virðingu sína þegar hann sleppti sér í sjónvarpsviðtali, helti sér yfir þá sem hafa leyft sér að gagnrýnt töp íslenska landsliðsins og nánast kenndi Loga um að leikir töpuðust! Fólki var brugðið þegar viðtalið við Guðmund birtist.
Guðmundur var þjálfari íslenska landsliðsins sem náði silfrinu í Japan sælla minninga sumarið 2008 þar sem Ólafur Stefánsson var fyrirliði og stjarna liðsins, ásamt fjölmörgum öðrum frábærum leikmönnum. Einn þeirra var umræddur Logi Geirsson. Síðan eru liðin mörg ár og Guðmundur getur ekki endalaust lifað á fornri frægð en hann hefur gert margt gott og frábært á þjálfaraferli sínum. En nú er hann greinilega sprunginn á limminu. Tími hans er liðinn. Allt hefur sinn tíma.
HSÍ verður nú að skipta um landsliðsþjálfara. Leikmennirnir eru ekki vandamálið - heldur þjálfarinn. Íslendingar eiga svo marga frábæra þjálfara. Fáum einhvern þeirra til að taka við verkefninu til að leiða landslið okkar upp á við næstu árin. Einhver eftirtalinna gæti leyst þetta starf vel af hendi: Alfreð Gíslason, Dagur Sigurðsson, Aron Kristjánsson, Geir Sveinsson eða Patrekur Jóhannesson svo einhverjir séu nefndir. Við eigum reyndar fleiri góða þjálfara í handbolta.
Það er ekki viðunandi að tapa glæsilega og tala um „stórkostlegan árangur“ þegar um er að ræða lélegustu frammistöðu síðan mælingar hófust. Við verðum að gera miklu meiri kröfur.