Grímur Þór Gíslason matreiðslumaður og eiginkona hans Ásta María eiga og reka fjölskyldufyrirtækið Grímur kokkur. Grímur kokkur er í fremstu röð í framleiðslu á tilbúnum sjávarréttum. Fyrirtækið er staðsett í Vestmannaeyjum og sendir frá sér ferskar vörur daglega til Reykjavíkur. Í þættinum Matur og Heimili heimsækir Sjöfn Grím til Vestmannaeyja og fær innsýn í fyrirtækið og framleiðsluna.
„Markmið okkar er að framleiða aðeins fyrsta flokks vöru úr fyrsta flokks hráefni sem er bæði holl, bragðgóð og fljótleg að framreiða,“segir Grímur og hefur mikinn metnað og ástríðu fyrir framleiðsluvörum fyrirtækisins.
„Það sem ég hef lært gegnum tíðina og þeim árum sem ég hef verið í þessu er að gamli góði heimilismaturinn er langvinsælastur. Plokkfiskurinn okkar er langvinsælasta varan hjá okkur, síðan eru það Omega fiskibollurnar okkar og steikti fiskurinn.“ Grímur bætir því jafnframt við að þau hafi lagt metnað sinn í framleiðslunni að ná til unga fólksins og barna til að borða meiri fisk.
Þegar Sjöfn spyr Grím út í uppskriftirnar af hinum vinsælu réttum, eins og plokkfisknum, kemur í ljós að Úlfar Eysteinsson heitinn hjá Þremur Frökkum, Úlli eins og Grímur kallar hann, á stóran þátt í uppskriftinni á plokkfisknum hans Gríms sem frægur er fyrir ljúffengt bragð og áferð.
Áhugavert og fræðandi innlit til Gríms í þættinum Matur og Heimili í kvöld á Hringbraut.
Þátturinn Matur og Heimili með Sjöfn Þórðar er sýndur klukkan 19.00 og fyrsta endursýning er klukkan 21.00 í kvöld.