„Mér finnst einhvern veginn eins og fyrri hálfleik sé lokið í baráttunni við COVID-19-veiruna,“ segir Gísli Páll Pálsson, forstjóri Grundar-heimilanna og íbúi í Hveragerði, í aðsendri grein sem birtist í Morgunblaðinu um helgina.
Gísli Páll segir að hingað til hafi Íslendingum tekist vel til í baráttunni við veiruna. Hann bendir þó að Hvergerðingar hafi orðið fyrir miklu áfalli vegna fráfalls góðra hjóna í bænum og þá hafi margir orðið mikið veikir.
„En að teknu tilliti til þess hversu fáir létu lífið á Íslandi miðað við víða annars staðar út í heimi, þá getum við mjög vel við unað. Landið virðist vera nær smitlaust og daglegt líf að komast í samt lag. Heimsóknarbanni hefur nú algjörlega verið aflétt af hjúkrunarheimilunum og þá komast allir í crossfit sem það kjósa. Þetta hefur tekist með feikna-samstilltu átaki allra sem að þessum málum koma.“
Gísli Páll segir að fullt tilefni sé til að þakka öllum þeim sem hafa komið að framangreindum málum fyrir þeirra góða framlag. Samvinna og samkennd séu þau orð sem koma fyrst upp í hugann, kannski á eftir handþvotti. Hann telur þó að síðari hálfleikur sé handan við hornið.
„Seinni hálfleikur hefst líklega þegar ný smit greinast við komu erlendra ferðamanna til landsins, væntanlega í lok júní. Þá ríður á að við séum aftur tilbúin í leikinn, sem er reyndar ekki leikur, heldur dauðans alvara. Njótum hálfleiksins en verum tilbúin með vel reimaða takkaskó og hreinar hendur þegar sá seinni hefst.“