Gísli Finnsson, sem fluttur var til Íslands með sjúkraflugi frá Spáni þann 8. október síðastliðinn, er með varanlegar heilaskemmdir. Aðstandendur Gísla fóru í gær á fund með teymi á Landspítalanum sem séð hefur um Gísla undanfarnar vikur þar sem þetta kom fram. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.
Guðlaug Kristbjörg Jónsdóttir, frænka Gísla, greindi frá þessu í færslu á Facebook-síðu sem sett var á laggirnar Gísla til stuðnings.
Gísli er 35 ára þriggja barna faðir en hann fannst meðvitundarlaus utan dyra á Torrevieja á Spáni þann 21. ágúst síðastliðinn. Dvaldi hann á sjúkrahúsi á Spáni í einn og hálfan mánuð áður en hann kom heim.
„Teymið sér að heilaskemmdir eru varanlegar, hann kemur ekki til með að vera sá Gísli sem við þekkjum,“ segir í færslu Guðlaugar.
„Staðan í dag er sú að hann er mikið veikur, hiti/sýkingar/bakteríur sem hann er að berjast við og því er hann enn í einangrun. Hann getur ekki hreyft sig eða tjáð sig en virðist heyra í okkur og sjá. Hann þarf aðstoð við allar daglegar athafnir,“ segir í færslunni.
Aðstandendur taka þó fram að hann sé í frábærum höndum og eru þeir þakklátir fyrir það að hann njóti meðferðar á Íslandi. Var það fyrir tilstilli söfnunar, þar sem margir landsmenn lögðu hönd á plóg, sem hægt var að koma Gísla til landsins.
Guðlaug veitti Fréttablaðinu góðfúslegt leyfi til að fjalla um líðan Gísla. Í samtali við blaðamann vill hún einnig hvetja Alþingismenn og aðra sem völdin hafa til að koma í veg fyrir að aðrir Íslendingar lendi í svipaðri stöðu og Gísli lenti í. Hann sat fastur á sjúkrahúsi á Spáni þar til aðstandendur voru búnir að safna nokkrum milljónum króna til að koma honum heim með sjúkraflugvél.