Í rauninni er það magnað hve hófstillt viðbrögðin eru við hinu mikla hruni í þátttöku í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Það ætti jafnvel að vera flokknum meira áhyggjuefni en fylgishrunið sjálft, fólki virðist einfaldlega vera sama. Borgin hefur verið höfuðvígi flokksins, en getur varla talist vera það lengur.
Björn Bjarnason fyrrverandi aðstoðarritstjóri Morgunblaðsins, þingmaður og ráðherra, skrifar um þetta mikla hrun á bloggi sínu og er í öngum sínum. Björn rekur að árið 2006 greiddu 10.486 atkvæði í prófkjöri flokksins í Reykjavík (til glöggvunar má rifja upp að það var þegar Geir H. Haarde var formaður og í forystu kosningabaráttunnar). 2009 var þátttakan um 7.800 manns og nú, þegar frændi Björns er í forystusætinu í annað skiptið verður hrunið, fylgið er um 32% þess sem það var hjá Geir 2006.
Eðlilega veltir Björn fyrir sér hvað valdi. Hann skrifar: \"Í hádegisfréttum ríkisútvarpsins var í dag vitnað til framkvæmdastjóra Sjálfstæðisflokksins á þann veg sem birtist síðan á ruv.is: „Þórður Þórarinsson, framkvæmdastjóri flokksins, segir margt skýra þetta [minni kjörsókn]. Stutt hafi verið frá því framboðsfrestur rann út þar til kosið var, einhugur hafi verið um efsta sætið og prófkjörið hafi verið prúðmannlegt og lítið um auglýsingar.“
Þetta er sérlega athyglisverð skýring hjá framkvæmdastjóranum og merkilegt að Björn skuli ekki gera athugasemdir við hana, sjá pistil Björns hér www.bjorn.is/ http://
Þegar betur er að gáð er þó skiljanlegt að gamlir raftar úr Sjálfstæðisflokknum setji upp skilningsvana svipinn þegar svona fylgishrun kemur til umræðu. Enginn getur fremur gert tilkall til þess að vera innfæddur, innvígður og innmúraður í flokkinn en Björn, sonur Bjarna heitins Benediktssonr sem frá unga aldri var einn helsti forystumaður flokksins, borgarstjóri, ritstjóri Morgunblaðsins, alþingismaður og ráðherra og formaður flokksins frá því Ólafur Thors féll frá allt til síns dauðadags. Að auki var Bjarni heitinn einn helsti hugmyndafræðingur flokksins um áratugi.
Nú er formaður flokksins alnafni Bjarna heitins og frændi. Hann var líka formaður í kosningunum 2013. Eins og venja hefur jafnan verið við venjulegar kringumstæúr var prófkjör fyrir kosningarnar vorið 2013 haldið haustið áður, 2012. Þá kusu 7.322 í prófkjörinu, Hefur nú fækkað um nærri helming. Hvers vegna? Eða kannski: Hvers vegna horfa menn vandlega framhjá skýringum sem blasa við sérhverjum sjáandi og hugsandi manni?
Fyrir kosningarnar 2013 gaf Bjarni formaður nokkur afgerandi og dýr loforð. Hann stóð meðal annars frammi fyrir klofningi í flokknum vegna afstöðunnar til umsóknar Íslands um aðild að Efvrópusambandinu. Hann greip til þess ráðs - til að halda flokknum saman í aðdraganda kosninga - að gefa skýrt og ákveðið loforð um að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um viðræðurnar að loknum kosningum. Hvað gerðist svo? Eftir kosningar fann þessi sami Bjarni upp hugtakið \"pólitískan ómöguleika\" þegar hann reyndi að réttlæta að hann sveik þetta loforð.
Hann lofaði líka skattalækkunum fyrir þessar kosningar. Hann hefur efnt þær gagnvart kvótagreifum landsins og nær alveg fellt niður veiðigjaldið á sama tíma og afkoma sjávarútvegsins hefur stórfelldlega batnað. Aðrir bíða enn eftir efndum þessa dýra loforðs.
Bjarni lofaði líka að leiðrétta kjör aldraðra og afnema skerðingu lífeyris þeirra. Gamlingjarnir bíða enn.
Náttfara finnst að ráð væri fyrir Valhöll að líta nú í eigin barm eftir skýringum á hve hratt og mikið hefur fjarað undan flokknum. Björn segir í bloggi sínu: \"Fjárhagur flokksins leyfir örugglega ekki aðkeypta og nákvæma greiningu á vanda hans í Reykjavík, ...\" Kannski væri ráð fyrir flokksforystuna að taka til í eigin ranni, átta sig á að langlundargeð flokkshestanna er ekki óendanlegt, menn láta ekki endalaust rétta sér fingurinn án þess að bregðast við. Engar fokdýrar greiningar þarf til að sjá það. Bara þarf að opna augun og viðurkenna staðreyndir sem blasa við.