Alþingismaðurinn Óli Björn Kárason hefur varla lokað munninum síðan hann var loks kjörinn á þing fyrr í vetur.
Hann virðist telja sig þurfa að hafa skoðanir á öllum sköpuðum hlutum og fellir gjarnan þunga dóma um menn og málefni. Honum hefur verið einkar uppsigað við RÚV og skrifar reglulega illa rökstuddar skætingsgreinar um stofnunina sem birtar eru í Morgunblaðinu.
Upp á síðkastið hefur hann beint spjótum sínum að lífyrissjóðunum sem hann finnur flest til foráttu, meðal annars að þeir séu orðnir óheppilega umfangsmiklir í íslensku atvinnulífi. Lífeyrissjóðirnir voru það eina af fjármálakerfi landsins sem fór ekki á hausinn í hruninu og þeir hafa gegnt lykilhlutverki við uppbyggingu atvinnulífsins að nýju eftir hrun. Þingmaðurinn rökstyður ekki með neinum hætti hvað sé óheppilegt við aðkomu lífeyrissjóða að íslenskum fyrirtækjum en hún er mikil í þeim fyrirtækjum sem skráð eru á Kauphöll Íslands en ekki afgerandi í óskráðum fyrirtækjum.
Óli Björn hefur einnig tekið upp áralangt tuð Styrmis Gunnarssonar um að sjóðsfélagar eigi að kjósa stjórnir lífeyrissjóðanna í almennum kosningum. Það fyrirkomulag sem gilt hefur hingað til, og er nokkuð mismunandi eftir sjóðum, hefur reynst afar vel. Einhverjir tala þó stöðugt um að brýnt sé að halda opnar kosningar um þetta. Vert er að hafa í huga að stjóðsfélagar sem eiga réttindi í stærstu lífeyrissjóðunum eru á bilinu 150,000 til 250,000 og því ekki lítið mál að efna til almennra kosninga um stjórnarkjör.
Dagfari veit að sjóðsfélagar hafa engan áhuga á svona kosningum. Þeir virðast flestir vera mjög rólegir yfir málefnum lífeyrissjóðanna. Það eru einungis menn eins og Styrmir, Ragnar Þór Ingólfsson og Óli Björn sem klifa á þessu. Áhugaleysi sjóðsfélaganna sést best á því að einungis fáir tugir þeirra sjá ástæðu til að mæta á ársfundi sjóðanna sem þó væru kjörinn vettvangur til að láta til sín taka ef áhugi væri fyrir hendi. En það gerist ekki.
Dagfari fylgdist með þegar Óli Björn ræddi þessi mál við Þóreyju Þórðardóttur, framkvæmdastjóra Landssamtaka lífeyrissjóða, í Víglínunni á Stöð 2 um helgina. Þar komu engin rök fram hjá þingmanninum varaðndi þessi mál frekar en fyrri daginn. Hann sló um sig með upphrópunum eins og að “lífeyrissjóðina skorti traust”.
En skortir lífeyrissjóðina traust? Hvar hefur það komið fram? Lífeyrissjóðir landsins eru hornsteinar fjármálakerfisins og hafa reynst landsmönnum happadrjúgir. Þeir stóðu einir eftir þegar bankar og fjármálafyrirtæki hrundu og þeir hafa gegnt lykilhlutverki í að efla sparnað þjóðarinnar. Hver segir að þeir njóti ekki trausts meðal sjóðsfélaga og landsmanna? Meira og minna allir Íslendingar eiga réttindi í sjóðunum sem þeir njóta góðs af á efri árum eða þegar áföll dynja yfir. Fyrir það er fólk þakklátt.
Hins vegar er varla deilt um það að Alþingi nýtiur ekki trausts. Allar Gallupmælingar síðustu árin sýna að landsmenn bera afar takmarkað traust til Alþingis og þingmanna. Yfirleitt innan við 10%. Það stendur Óla Birni Kárasyni nær að reyna að bæta þar úr bráðum vanda. Það gerir hann ekki með ómálefnalegum sleggjudómum eins og hann gerir sig sekan um, t.d. að því er varðar umræður um RÚV og íslenska lífeyrissjóði.
Auk þess má spyrja hvort landsmenn beri traust til þeirra sem gengu svo glatt um gleðinnar dyr fyrir hrun að bankar og fjármálafyrirtæki þurftu að afskrifa á þá mörg hundruð milljónir króna í hruninu.
Yfirlýsingaglaði þingmaðurinn, Óli Björn Kárason, kemur við sögu í rannsóknarskýrslu Alþingis þar sem fjallað er um þá fjölmiðlamenn sem fengu mestar fjárhæðir afskrifaðar. Þar voru þrír menn fremstir meðal jafningja: Björn Ingi Hrafnsson með 563 milljónir, Óli Björn Kárason með 478 milljónir, á verðlagi ársins 2005, og í þriðja sæti var Styrmir Gunnarsson með mun lægri fjárhæð.
Þetta kemur skýrt fram í rannsóknarskýrslu Alþingis og hefur verið til umfjöllunar í fjölmiðlum, m.a. í DV þann 12. apríl 2010.
Spurningin sem ætti að standa Óla Birni Kárasyni mjög nærri um þessar mundir er hvort hann geti vænst þess sjálfur að vinna glatað traust til baka eftir að upplýst er að bankar hafi þurft að afskrifa á hann 478 milljónir króna eins og staðfest er í opinberri skýrslu.
Væri ekki ráð að byrja á því áður en farið er að benda fingri á aðra?