Getur gunnar bragi ekki farið að vinna á bensínstöðinni á sauðárkróki að nýju?

Gunnar Bragi Sveinsson alþingismaður er sá sem gekk lang lengst þeirra sem fóru óvarlega á bar og urðu uppvísir að megnum dónaskap og mannfyrirlitningu. Gunnar gekk svo langt í framgöngu sinni að hann hlýtur að segja af sér þingmennsku. Þingið verður ekki tekið alvarlega á meðan maður af hans tagi er þar og tekur þátt í að setja þjóðinni lög. Ástæðulaust er að endurtaka allt sem hann lét út úr sér á barnum og hefur verið tíundað í fjölmiðlum. Fæst af því er hvort sem er prenthæft.

 

Stjórnmálaferill þessa manns hefur einkennst af hroka, karlrembu og stundum beinlínis kjánaskap eins og þegar hann lagði fyrir Alþingi þingsályktunartillögu um að slíta viðræðum við ESB sem höfðu staðið yfir í mörg ár. Með því vann hann skemmdarverk sem seint verður bætt. Gunnari skaut hratt upp á himinn stjórnmálanna en hann hafði fram að stjórnmálaferli sínum rekið sjoppu með bensíndælum á Sauðárkróki. Hann þótti hafa ágæt tök á því starfi. Nú væri vel við hæfi að hann segði af sér þingmennsku og tæki til við sjoppureksturinn þar sem frá var horfið. Þar á hann heima en ekki á Alþingi – og enn síður í ríkisstjórn. Gunnar Bragi gegndi m.a. embætti utanríkisráðherra. Í ljósi dómgreindarleysis hans núna setur hroll að manni við tilhugsunina um að hann hafi komið fram fyrir hönd þjóðarinnar í krafti þess embættis.

 

Gunnar Bragi skipti um flokk í fyrra. Hann gekk úr Framsókn og yfir í Miðflokkinn (Mjöðflokkinn). Þó hann hafi skipt um flokk telur hann sig vafalaust „eiga inni“ þann greiða að fá skipan sem sendiherra þannig að hann geti látið sig hverfa af sviðinu og tekið sér bólfestu í pólitísku skipbrotsmannaskýli sem sum sendiráðin eru, t.d. í Finnlandi og Kanada. Það kemur ekki til greina. Það er ekki boðlegt eftir það sem á undan er gengið.

 

Gunnari Braga yrði frekar fyrirgefið ef hann segir strax af sér þingmennsku og byrjar að nýju í sjoppunni. Hann ræður við það starf.

 

rtá.