Umdeild opinber heimsókn Donalds Trumps forseta Bandaríkjanna til Bretlands hófst í gær. Hún er um margt táknræn fyrir þá nýju utanríkisstefnu Bandaríkjanna sem kjósendur fólu Trump að framkvæma.
Stærsta breytingin er sú að áður lögðu Bandaríkin áherslu á að leggja samstöðu bandamanna í Evrópu lið. Obama stefndi til að mynda að því í forsetatíð sinni að gera fríverslunarsamning við Evrópusambandið í heild.
Trump vill sundra samstöðunni í Evrópu
Nú er það kappsmál Bandaríkjanna að sundra samstöðunni í Evrópu. Trump fer ekki dult með hvað það er sem að baki býr. Að hans mati er staða Bandaríkjanna sterkari gagnvart einstökum ríkjum sem ekki hafa skipulegt samstarf sín á milli. Það sjónarmið eitt ræður för.
Í þessum tilgangi hefur Trump lagst á árar með Brexit. Markmiðið er ekki að styrkja Breta heldur að veikja Evrópusambandið. Hann hefur ítrekað haft fráfarandi forsætisráðherra Breta að háði og spotti fyrir kænskuskort í samningum. Nú hagnýtir forseti Bandaríkjanna sér opinbera heimsókn til þess að hafa áhrif á það hver verður næsti forsætisráðherra Breta.
Eftir forsetakjörið vildi Trump að breska stjórnin skipaði Farage núverandi formann Brexitflokksins sendiherra í Bandaríkjunum. Farage hefur eftir sigur í Evrópukosningunum á dögunum krafist þess að fá hlutverk í samningunum um útgöngu Breta. Og Trump notar heimsóknina til að knýja á um að Farage verði falið að leiða Brexit til lykta.
Jafnvel Bretar verða að kyngja slíkri framkomu
Hér er um að ræða afar afkáralega íhlutun um innanríkismál svo ekki sé dýpra í árinni tekið. Umfram allt sýnir þetta þó lítilsvirðingu Bandaríkjanna gagnvart Bretum. En á móti veifar Trump óljósu og óútskýrðu fyrirheiti um fríverslunarsamning ef Bretar uppfylli óskir hans um að fara samningslausir út úr Evrópusambandinu.
Hann strýkur þeim fyrst rangsælis en heitir að strjúka þeim réttsælis ef þeir lofa að fara að vilja hans.
Einstaka stjórnmálamenn og fréttaskýrendur í Bretlandi vilja andæfa í nafni sjálfsvirðingar bresku þjóðarinnar. Hins vegar trúa margir þeirra sem standa lengst til hægri á hugmyndafræði Trumps. Hinir eru þó fleiri sem kjósa að loka augum og eyrum. Rökin eru þau að Bretland þurfi svo mikið á Bandaríkjunum að halda eftir Brexit að þjóðin hafi ekki efni á að láta framkomu af þessu tagi trufla samskiptin. Það er kalt hagsmunamat og raunhæft eins og málum er komið.
Æ færri tala um Trump sem leiðtoga hins frjálsa heims
Til skamms tíma vísuðu flestir til forseta Bandaríkjanna sem leiðtoga hins frjálsa heims. Sú tilvísun heyrist æ sjaldnar. Flestir láta duga að vísa til forseta Bandaríkjanna sem valdamesta manns í heimi. Þessi breyting ein og sér segir í raun meira en mörg orð um þau umskipti sem eru að eiga sér stað. Bandaríkin eru smám saman að láta sameiginlegar hugsjónir og gildi víkja fyrir sérhagsmunum sínum.
Getum við dregið einhvern lærdóm af þessu? Breytt utanríkisstefna Bandaríkjanna hefur áhrif á Ísland eins og Breta og önnur grannríki. Því er erfitt að láta sem ekkert hafi gerst.
Forsætisráðherra svarar ekki áleitnum spurningum
Á dögunum ræddi Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra loftslagsmálin við Pompeo utanríkisráðherra Bandaríkjanna á fundi í ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu. Nokkru síðar bannaði hann utanríkisráðherrum Norðurskautsráðsins að tjá sig um loftslagsmál í sameiginlegri yfirlýsingu. Sú afstaða beinist auðvitað ekki gegn Íslandi sérstaklega en bitnar á okkur eins og öðrum.
Vafalaust er það tilviljun að á sama tíma gaf utanríkisráðherra Bandaríkjanna afar óskýrt fyrirheit um að gera viðskiptasamning við Ísland. Ríkisstjórn Íslands gerði mikið úr þessu kostaboði og staðhæfði að það markaði tímamót í samskiptum landanna. Það má vera rétt en spurningin er bara þessi: Býr sama hugsun að baki og gagnvart Bretum?
Árni Finnsson formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands hefur gagnrýnt Bandaríkin fyrir að kljúfa Norðurskautsráðið. En Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hefur hvorki treyst sér til að gagnrýna Bandaríkin af þessu tilefni né svara spurningum um hvort ríkisstjórn hennar ætlar að bregðast við með einhverjum hætti.
Hvers vegna? Er það viðskiptasamningurinn sem Pompeo veifaði?
Veruleikinn er sá að Bandaríkin get gefið fyrirheit um að verja efnahagslega hagsmuni okkar gegn því að við verðum ekki með óstand. Kínverjar geta gert það sama. Spurningin er bara: Hvernig skjól viljum við hafa í alþjóðasamfélaginu?
Valið um meginstefnu er á milli fjölþjóða samvinnu eða tvíhliða
Bretar kusu að yfirgefa fjölþjóðasamstarf og stefna á tvíhliða samninga við einstök ríki. Sem fimmta stærsta efnahagsveldi í heimi töldu þeir sig standa betur að vígi með þeim hætti. Þetta var sama hugsun og býr að baki stefnubreytingu Trumps. Bretland verður að vísu háð Bandaríkjunum en getur haft undirtökin í samskiptum við smærri ríki.
Á löngum tíma er hugsanlegt að þessi pólitík geti gengið upp fyrir þá. En það er þegar ljóst að Ísland og ýmis önnur smærri lönd á innri markaði Evrópusambandsins skaðast umtalsvert.
Ísland stendur andspænis því að velja að meginstefnu til á milli þessara tveggja leiða: Fjölþjóðasamvinnu eða tvíhliðasamninga. Það þarf að vega og meta hvor leiðin tryggir betur efnahagslega hagsmuni landsins og hvor þeirra veitir betra pólitískt skjól. Hvaða hugsjónir og gildi viljum við verja samhliða efnahagslegum hagsmunum?
Varhugaverðast er að reyna að fara báðar leiðirnar samtímis. Við reyndum þá aðferð í aðdraganda og byrjun síðustu heimsstyrjaldar. Það mistókst. Þótt ekki sé unnt að jafna friðartímum við ófriðartíma er valið um meginstefnu milli tveggja kosta í eðli sínu eins þýðingarmikið. Helsti munurinn er kannski sá að nú mun enginn koma og knýja okkur til að taka afstöðu eins og þá.
Ríkisstjórnin sendir misvísandi skilaboð
Aðalatriðið er því að ríkisstjórn Íslands hafi skýra sýn á það hvora leiðina eigi að fara.
Vandinn sem við blasir lýsir sér aftur á móti í því að ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur gefur misvísandi skilaboð í þessum efnum. Einn daginn eru stórkostleg tækifæri í Brexit og tvíhliðasamningum. Næsta dag er fjölþjóðasamvinna á innri markaði Evrópusambandsins það sem öllu máli skiptir.
Engin leið er að henda reiður á hvað ríkisstjórnin hugsar í þessum efnum sem meginstefnu til lengri tíma eða hvort hún er að hugsa þau yfir höfuð; fyrir utan að segja eitt í dag og annað á morgun.