Það er þungt í nýjum formanni Neytendasamtakanna. Hann skrifar opið bréf til stjórnmálamanna þar sem hann segir í upphafi.
Fyrir Alþingi liggur nú frumvarp til fjáraukalaga. Í því er lagt til að veitt verði 100 milljónum króna til; „Matvælalandsins Íslands til að standa fyrir sérstöku markaðsátaki á erlendum mörkuðum sauðfjárafurða vegna fyrirsjáanlegrar birgðaaukningar.“
Formaðurinn segir þetta aðför að neytendum. Hann vitnar áfram í frumvarpið: „...ljóst er að afsetja þarf um 800 til 1.000 tonn til að koma í veg fyrir uppnám og almenna verðfellingu á kjöti á innlendum markaði seinnipart vetrar og/eða næsta haust.“
Landbúnaðarráðherrann, Gunnar Bragi Sveinsson, hefur svarað Ólafi Arnarsyni formanni Neytendasamtakanna. Ráðherra skrifar meðal annars:
„Ef nýr formaður Neytendasamtakanna vill sérstaklega skoða starfsumhverfi sauðfjárbænda gæti hann beint spjótum sínum að versluninni og skoða hversu hátt hlutfall hún tekur af smásöluverðinu útí búð. Samkvæmt tölum Hagstofunnar fær hver bóndi einungis að meðaltali þriðjung af heildarverði kjöts í sinn hlut. Hann gæti líka skoðað hvernig stendur á því að arðsemi af verslunarkeðjum hér á landi er mun meiri en á löndunum í kringum okkur og athugað sérstaklega hvers vegna styrking krónunnar og niðurfelling á vörugjöldum og tollum skili sér ekki útí verðlagið? Ég bíð spenntur eftir öðru opnu bréfi þar sem hann fer yfir þátt verslunarinnar í of háu verðlagi hér á landi en jafnframt vona ég að hann kynni sér málin betur áður en hann skrifar fleiri opin bréf með órökstuddum fullyrðingum um íslenskan landbúnað.“
Til að byrja með ber að þakka Gunnar Braga að hafa svarað formanni Neytendasamtakanna. Hitt er annað, þar sem ráðherra brýnir formann Neytendasamtakanna til rannsókna á smásöluverslun og hvað verður um söluverð lambakjöts er eitt svar; gerðu þetta bara sjálfur Gunnar Bragi. Þitt er valdið og þitt er tækifærið.