Geir H. Haarde birtir stórmerkilegar upplýsingar í ævisögu sinni og gerir upp við andstæðingana

Nýútkomin ævisaga Geirs H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, sætir tíðindum. Hann skrifar bókina sjálfur og dregur ekkert undan. Verkið er upp á meira en 500 blaðsíður, vandað að allri gerð.

Við lestur bókarinnar áttar maður sig á því hve mikill yfirburðamaður Geir Haarde er að mörgu leyti vegna gáfna, reynslu og mikillar menntunar í þremur virtum háskólum í Bandaríkjunum. Óhætt er að segja að allt þetta hafi komið að góðum notum í þeim hrikalegu aðstæðum sem ríkisstjórn hans þurfti að glíma við þegar bankahrunið dundi yfir í heiminum með skelfilegum afleiðingum fyrir Ísland. Geir nýtti alla góða kosti sína til að „bjarga því sem bjargað varð“ við þessar erfiðu aðstæður. Í bókinni kemur fram að ýmsir mikilvægir aðilar gerðu ekki mikið gagn, þvældust heldur fyrir. Hann nefnir Össur Skarphéðinsson sem var þegar í nóvember 2008 byrjaður þreifingar um myndun vinstri stjórnar með Vinstri grænum sem komst svo á og reyndist vera versta ríkisstjórn lýðveldistímans á Íslandi. Þá fer ekki milli mála að formaður bankastjórnar Seðlabanka Íslands, Davíð Oddsson, var fíllinn í herberginu. Geir fer þó tiltölulega mjúkum höndum um þennan gamla vin sinn og samherja úr Sjálfstæðisflokknum.

Sá maður sem fær harðasta dóma í bókinni – og virðist eiga það fyllilega skilið – er Steingrímur J. Sigfússon. Hann reyndi mikið að komast í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum eftir kosningarnar 2007 en lagði fram svo óbilgjarnar kröfur að Geir leist ekki á blikuna og myndaði stjórn með Samfylkingunni. Samstarf hans og Ingibjarnar Sólrúnar Gísladóttur, formanns Samfylkingarinnar, var gott og heiðarlegt. Upp úr samstarfi flokkanna slitnaði í byrjun árs 2009, ekki síst vegna alvarlegra veikinda þeirra beggja en þá hafði Ingibjörg að mestu misst tökin á Samfylkingunni vegna veikinda sinna og því fór sem fór.

Þegar upp kom sú staða að mynduð var vinstri stjórn Samfylkingar og Vinstri grænna snemma árs 2009 sýndi Steingrímur J. Sigfússon sitt rétta andlit og beitti andstæðinga sína mikilli hörku. Framkoma hans mótaðist greinilega á mikilli óvild í garð Sjálfstæðisflokksins, atvinnulífsins og borgarastéttar landsins. Vert er að hafa í huga að hann hafði þjáðst um árabil fyrir það að vera með flokk sinn utan stjórnar í valdalausri stjórnarandstöðu. Steingrímur hvarf úr ríkisstjórn vorið 1991 og komst ekki aftur til valda fyrr en alþjóðlegt bankahrun hafði dunið yfir heimsbyggðina og hrun á Íslandi. Þá fyrst var röðin komin að honum eftir 18 ára eyðimerkurgöngu.

Áhrifamikið er að lesa lýsingu Geirs Haarde á því hvernig var umhorfs í stjórnmálum á Íslandi haustið 2008 og hvað ráðherrar ríkisstjórnarinnar þurftu að gera við björgunarstörf sín. Niðurstaðan varð sú að leita til Alþjóða gjaldeyrissjóðsins eftir aðstoð við endurreisn efnahagslífsins á Íslandi. Ljóst er að sú ákvörðun var rétt enda studdu hana flestir stjórnmálamenn aðrir en Vinstri grænir og svo formaður bankastjórnar Seðlabanka Íslands, Davíð Oddsson.

Þegar Geir Haarde fjallar um Landsdómsmálið sem kallað hefur verið „níðingsverk“, þar sem hann var einn dreginn fyrir dóminn fyrir engar sakir að því er virðist, liggur honum þungt orð til þeirra sem báru ábyrgð á þeirri framvindu allri. Erfitt er að neita því að allt það mál hlýtur að teljast ljótur blettur á íslenskum stjórnmálum síðari áratuga. Geir mátti eyða tveimur árum af lífi sínu til að verjast í þessu máli sem aldrei hefði átt að koma upp. Enn á ný virðist Steingrímur J. Sigfússon hafa verið köngulóin sem spann vefina í því máli þó að hann héldi öðru fram og þættist hafa greitt atkvæði á Alþingi gegn Geir „með sorg í hjarta.“ Ógleði hefur trúlega sótt að einhverjum við þá yfirlýsingu.

Á þessu hausti hittist svo á að fjórir af helstu leikurum hruntímans hafa sent frá sér bækur. Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrum forseti Íslands, sendi frá sér úrval úr dagbókum sínum frá þessum tíma. Af lestri bókarinnar má ljóst vera að hann hefur brugðist trúnaði við fjölda manna en einnig virðist hann hafa verið maðurinn á bak við tjöldin sem spilaði með leiðtoga vinstri flokkanna eins og honum sýndist. Steingrímur J. Sigfússon sendi einnig frá sér bók þar sem hann reynir að sýna á sér aðra hlið sem sögumaður og hagyrðingur en leggur minni áherslu á stjórnmálin. Þá er komin út bók eftir Svavar heitinn Gestsson sem lýsir hans hlið á svonefndu Icesave-máli þar sem hann gegndi formennsku í samninganefnd sem fengið hefur mikla gagnrýni, þar á meðal í fyrrnefndri bók Ólafs Ragnars Grímssonar. Bók Geirs Haarde er langmikilvægust af þessum bókum og sú eina sem leggur mikið markvert til sögunnar við uppgjör á þessum einstöku og hræðilegu tímum á Íslandi.

Bók Geirs einkennist af því hve vel og hlýlega hann talar almennt um fólk, nema einungis þá sem komu illa fram í tengslum við hrunið og Landsdómshneykslið.

- Ólafur Arnarson.