Isavia hefur undirritað samning við fyrirtækið Aireon um notkun á geimlægum kögunarbúnaði við stýringu flugumferðar í íslenska flugstjórnarsvæðinu. Búnaðurinn nefnist ADS-B.
Ferðalagið mun fjalla um málið í næsta þætti á morgun, miðvikudag og ræða við Ásgeir.
Með búnaðinum verður hægt að fá nákvæmari upplýsingar um staðsetningu flugvéla í nyrðri hluta íslenska flugstjórnarsvæðisins. Íslenska flugstjórnarsvæðið er 5,4 milljón ferkílómetrar að stærð og eitt hið stærsta í heiminum og fóru 165.000 flugvélar um svæðið á árinu 2016. Búnaðinum var skotið upp með SpaceX eldflauginni þarsíðustu helgi.
Ásgeir Pálsson, framkvæmdastjóri flugleiðsögusviðs Isavia, segir Isavia vilja vera í fremstu röð hvað varðar öryggi og hagkvæmni í flugstjórnarsvæðinu okkar. „Kostirnir við að innleiða ADS-B á svæðinu okkar eru augljósir. Við vinnum í nánu samstarfi við flugleiðsöguaðilana í kringum okkur að umbótum og allar miða þær að því að gera ferðalag viðskiptavina okkar um svæðið sem best”, segir Ásgeir.
Íslenska flugstjórnarsvæðið tengir þrjár heimsálfur, Evrópu, Norður-Ameríku og Asíu. Tengir saman mörg flugstjórnarsvæði á Norður-Atlantshafi.