Óli Björn Kárason, varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins, hættir sér enn á ný út á hálan ís þegar hann ræðir um skattpíningu í enn einni grein sinni sem birt er í Morgunblaðinu 19. október. Hann virðist hafa stöðugar áhyggjur af væntanlegum skattaálögum vinstri flokkanna, komist þeir til valda að loknum kosningum.
Náttfara finnst svo sem ekkert til að staldra við nema fyrir þá sök að Óli Björn Kárason greiðir enga beina skatta til ríkis eða sveitarfélaga, ef marka má skattskrá RSK sem lögð var fram á síðasta sumri. Í tekjublaði DV sem kom út í kjölfar þess að skattskrár voru birtar, kom fram að Óli Björn Kárason varaþingmaður sýndi einungis kr. 130.000 í skattskyldar tekjur á mánuði árið 2015. Það þýðir að þegar tekið hafði verið tillit til persónuafsláttar greiddi hann kr. 0,00 í tekjuskatt og sama í útsvar. Þessum upplýsingum DV hefur ekki verið mótmælt.
Í fyrrnefndri grein segir Óli Björn orðrétt:
“Garmurinn hann Ketill – skattgreiðandinn – á sér litlar varnir í aðdraganda kosninga. Helst að hann reyni að leita sér huggunar í hástemmdum yfirlýsingum loforðasmiðanna um að útgerðin skuli borga stærsta hluta konsingavíxlanna sem renna út af færibandi stjórnmálaflokkanna……………… Loforðið um að gera allt fyrir alla, ókeypis, er aldrei ókeypis. Þetta á garmurinn hann Ketill skattgreiðandi að vita af biturri reynslu………..”
Sei, sei. Garmurinn hann Óli Björn skattleysingi er samkvæmt opinberum skattskrám ekki í hópi þeirra sem þurfa að hræðast þetta. Hann hættir sér út á afar hálan ís þegar hann þykist vera einhver talsmaður skattgreiðenda, skattpíndra Íslendinga.
Það eru allt aðrir sem fylla þann hóp. Óli Björn er aftur á móti í slagtogi með þeim sem lögðu ekkert til samfélagsins í formi beinna skatta á árinu 2015 samkvæmt opinberum skattskrám.
Stundum getur verið smekklegra að segja fátt.