Gamli ritstjórinn styður ölmusur til stórútgerða

 Það fer varla á milli mála að Davíð Oddsson hefur sjálfur skrifað leiðara sem birtist í Morgunblaðinu þann 7. júní sl. Leiðarinn er svo fullur af útúrsnúningum, rökleysum og lélegum fimmaurabröndurum að enginn nema Davíð myndi leyfa sér að láta annað eins frá sér fara.

 

Leiðarinn snýst um að skamma þá sem hafa gagnrýnt þá ósvífnu hugmynd ríkisstjórnarinnar að lækka veiðigjöldin um heila 2.6 milljarða króna sem einkum rynnu í vasa stórútgerðanna sem ölmusa. Sem betur fer virðist sem forsætisráðherra hafi áttað sig á því hve ósanngjörn og alvitlaus þessi hugmynd er en Katrín hefur lagt til að tillagan verði dregin til baka og að veiðigjöld verði óbreytt. Leiðarinn er því of seint fram kominn því málið var fallið um sjálft sig þegar blaðið kom úr prentvélinni.

 

Það breytir ekki hinu að hugarfar ritstjórans er skýrt. Hann krefst þess að áfram verið haldið að lækka veiðigjöldin en þau hafa lækkað um milljarða frá því á tíma vinstri stjórnar Steingríms J. og Jóhönnu. Framsóknarflokkarnir tveir, Sjálfstæðisflokkur og Framsókn, eru í grímulausum reddingum fyrir landbúnað og sjávarútveg en hafa takmarkaðan áhuga á atvinnulífinu að öðru leyti. Núna hafa Vinstri græn bæst í hóp þeirra sem vilja rétta útgerðinni ölmusur á kostnað alls almennings. Missi ríkissjóður 2.6 milljarða af tekjum sínum, þá er víst að ekki verður hægt að nota þá peninga til að bæta hag hinna verst settu í þjóðfélaginu eða bæta þjónustu heilbrigðiskerfisins eins og lofað var fyrir kosningar.

 

Gamli ritstjórinn kallar veiðigjaldið “aukaskatt sem engin önnur atvinnugrein þarf að búa við.” Hér er um útúrsnúninga að ræða enda er veiðigjaldið ekki skattur heldur gjald fyrir afnot, leiga vegna afnota af verðmætum. Um sambærilegan kostnað er að ræða og húsaleigu. Fyrirtæki sem stunda verslun á Íslandi greiða mörg hver háa húsaleigu fyrir að geta stundað verslnunarstarfsemi sína. Um er að ræða nauðsynlegan rekstrarkostnað til að geta stundað atvinnurekstur og tekjuöflun. Algerlega sambærilegt við að greiða veiðigjald fyrir að fá að nýta sameiginlega auðlind þjóðarinnar, fiskimiðin. Hér er því ekki um skatt að ræða heldur frádráttarbæran rekstrarkostnað vegna tekjuöflunar.

 

Sem dæmi má nefna að stærsta verslunarfyrirtæki landsins, Hagar hf., greiðir himinháar fjárhæðir í húsaleigu í Kringlunni og Smáralind til að geta stundað þar verslun og viðskipti. Hagar hf. leigja af félögum sem eiga fasteignir þær sem félagið nýtir vegna rekstrar. Alveg á sama hátt fær útgerðin að nýta sjávarauðlindina sem íslenska þjóðin á. Því þarf útgerðin að greiða leigu fyrir afnot af auðlindinni. Leigu en ekki skatt.

 

Vilji löggjafinn veita útgerðinni ölmusu í formi afsláttar af leigu á þessari auðlind, þá hlýtur að vera ástæða til að spyrja hvort ríkið eigi ekki með sama hætti að niðurgreiða húsaleigu verslunarfyrirtækja sem misstu viðskipti þegar Costco kom til landsins í fyrra.

 

Sem betur fer hefur afkoma sjávarútvegs verið frábær um árabil. Þannig hefur greinin getað greitt eigendum sínum 55 milljarða í arð á undanförnum árum og fjárfest fyrir 60 milljarða. Þessu fögnum við heilshugar. En þeir sem gera það svo gott eiga þá að gleðjast en ekki að grenja við öxlina á Alþingismönnum og ráðherrum og biðja um ölmusur.

 

Það er einnig mikið umhugsunarefni hvernig staðið var að kynningu á þessari hugmynd um niðurfellingu veiðigjalda upp á 2.6 milljarða króna. Beðið var með málið rétt fram yfir kosningar enda vitað að þjóðin tæki þessu mjög illa. Og svo var óbreyttum þingmanni falið að tala fyrir hugmyndinni á Alþingi. Lilja Rafney Magnúsdóttir var látin bera þann kross. En ráðherrar ríkisstjórnarinnar voru hvergi sjáanlegir. Ekki fyrr en allt var komið í hnút vegna harðra viðbragða á Alþingi og út um allt þjóðfélagið. Þá steig Katrín Jakobsdóttir fram með sáttatillögu um að draga málið til baka og halda óbreyttum veiðigjöldum – þar til handlangarar útgerðarinnar gera næstu atlögu.

 

En gamli ritstjórinn náði að senda sægreifunum sem eiga Morgunblaðið réttu skilaboðin: “Sjáið hve duglegur ég er að þjóna hgsmunum ykkar á kosnað almennings í landinu. Munið að ég er verðugur ofurlauna minna – og ég ætla alls ekki að hætta.”

 

Rtá.