Gamla metið jafngildir 31,377 og verður aldrei slegið

Furðutilraunin sem gerð var á Laugardalsvelli sl. föstudag mistókst illa.
Þá var settur upp æfingaleikur bresku úrvalsdeildarliðanna Manchester City og West Ham. Að sögn var ætlunin m. a. að slá aðsóknarmet að vellinum.
 
Hverjum dettur í hug að setja upp knattspyrnuleik á Íslandi klukkan tvö á föstudegi fyrir verslunarmannahelgina?
Það eru alla vega ekki staðkunnugir aðilar.
Og enginn virðist hafa bent þeim á hve vonlaust dæmið var.
 
Enda seldust einungis þrjúþúsund miðar á leikinn þó þekkt ensk lið væru að spila. Með sértilboðum og fjölda gjafamiða tókst að toga áhorfendafjöldann upp undir sex þúsund.
 
Til upprifjunar og samanburðar má nefna að þegar Valur tók á móti Benfica frá Portúgal haustið 1968 seldust 18,243 miðar á leikinn en hann var liður í Evrópukeppni meistaraliða í knattspyrnu.
 
Já, seldust. Ekki þurfti að gefa miða í allar áttir til að slá vallarmetið með glæsibrag.
 
Árið 1968 voru íbúar á Íslandi 200 þúsund en eru nú 344 þúsund. Fjölgunin nemur 72% á þessum 49 árum. Aðsóknin að leik Vals og Benfica árið 1968 jafngildir því að nú kæmu 31,377 áhorfendur og keyptu sig inn á Laugardalsvöllinn!
 
Þetta met verður aldrei slegið.
 
Þess má geta að leikurinn endaði 0-0. Það þótti vel af sér vikið hjá Valsmönnum enda státaði Benefica af heimsþekktum stórstjörnum eins og Eusébio og fleirum.
 
Í liði Vals voru meðal annarra Sigurður Dagsson, besti markvörður Íslandssögunnar, stórstjarnan Hermann Gunnarsson, Árni Njálsson, fyrirliði Vals um árabil og Halldór Einarsson, HENSON.
 
Rtá.