Nú, þegar sjálfstæðismenn í Reykjavík eru loks búnir að koma sér saman um aðferð við að velja á framboðslista fyrir borgarstjórnar kosningarnar í vor, eru farin að tínast inn nöfn þeirra sem ætla að reyna sig í prófkjöri flokksins. Upplausn hefur ríkt og enn er hver höndin upp á móti annarri og fylkingar munu skerpast.
Gömul númer freista þess að vera klöppuð upp. Nú síðast Kjartan Magnússon sem gekk um árabil í gegnum djúpan dal sem borgarfulltrúi í minnihluta og var svo ýtt út fyrir kosningarnar 2018, eftir að hafa legið flatur fyrir Eyþóri Arnalds í leiðtogaprófkjöri. Var honum ekki einu sinni boðið sæti á lista flokksins. Kjartan fékk starf hjá Evrópuráðinu í Strassborg en kom heim á ný og bauð sig fram í prófkjöri flokksins til Alþingis síðastliðið vor en var þá hafnað.
Þó að flokksmenn í Reykjavík sækist bersýnilega ekki eftir þjónustu Kjartans ætlar hann að reyna enn á ný. Hann gefur nú kost á sér og vill annað sætið á lista flokksins. Framboð Kjartans virðist meira en eftirspurn. Í framboðsyfirlýsingu sinni fjasar hann um vinstristjórn í Reykjavík en ætti að tala varlega til sjálfstæðismanna um það enda tóku þeir fyrir skemmstu að sér hlutverk burðarása í vinstri stjórn Katrínar Jakobsdóttur, foringja sósíalista á Íslandi – öðru sinni!
Annar gamall þulur sækist einnig eftir öðru sæti á lista flokksins. Þar er á ferð nýr maður í framboði, Þorkell Sigurlaugsson, tæplega sjötugur viðskiptafræðingur og fyrrum yfirmaður hjá Eimskip á tímum Kolkrabbans.
Þorkell er maður með viðskiptareynslu og þekkingu á ýmsum sviðum sem heyrir orðið til algerra undantekninga á vettvangi Sjálfstæðisflokksins. Hann hefur unnið fyrir Háskólann í Reykjavík og hefur einnig dýrmæta reynslu á sviði heilbrigðismála.
Árið 2017 skipaði Benedikt Jóhannsson hann formann nefndar til að hamla gegn skattsvikum. Þorkell lagði þá til að hætta allri notkun seðla í viðskiptum á Íslandi. Mæltist það vægast sagt illa fyrir.
Þorkell hefur ennfremur mikla reynslu á sviði skipulagsmála. Hjá Eimskip hafði hann með höndum kaup á fjölda húsa og lóða í Skuggahverfinu, lét skipuleggja háhýsabyggðina í hverfinu en Eimskip seldi síðar lóðirnar til byggingarverktaka með miklum hagnaði. Þorkell kann því fagleg vinnubrögð við arðsama þéttingu byggðar í Reykjavík sem mjög hefur verið til umræðu og virðist að mörgu leyti eiga meiri samleið með meirihlutanum og borgarstjóra í þeim málaflokki en með flokkssystkinum sínum í Sjálfstæðisflokknum.
Nái Þorkell öðru sæti á lista flokksins í Reykjavík birtist í forystu hans maður með margháttaða viðskiptareynslu sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki boðið upp á um langt árabil í borgarstjórnarframboðum sínum.
- Ólafur Arnarson