Gamaldags feitur íslenskur matur

Leifur Örn Svavarsson fjallagarpur og leiðsögumaður hjá Íslenskum fjallaleiðsögumönnum segir mikilvægt að taka með sér hæfilega feitan og bragðgóðan mat þegar haldið er til fjalla. Einna best að hans mati er að hafa í skjóðu sinni harðfisk og smjör, en einnig lifrarpylsu og sviðasultu sem hvorutveggja gefi skrokknum þá fljótvirku orku sem mestu skiptir fyrir erfiði fjallaferða. Í þessum efnum sé einmitt ágætt að hafa í huga hvað reynst hafi Íslendingum best við erfiðar aðstæður í gegnum tíðina.


Hér talar maður af reynslu, en Leifur hefur ekki einasta stigið fæti á báða póla jarðar, heldur og komist á topp allra hæstu fjalla þeirra álfa sem fyrirfinnast á jörðinni, þar á meðal þann hæsta, Everest.


Það er einmitt góða fitan sem skipti mestu máli þegar átök líkamans eru sem mest, sagði Leifur Örn sem var gestur Sigmundar Ernis í nýlegum þætti hans Lífsstíl, sem fjallar um heilsu og útivist og frumsýndur er sérhvert mánudagskvöld á sjónvarpsstöðinni Hringbraut.