Nýleg skoðanakönnun Gallup um stuðning og fylgi flokka sýnir að allir ríkisstjórnarfokkarnir þrír hafa tapað fylgi frá síðustu kosningum og fengju samtals einungis 30 þingmenn kjörna þó svo að stuðningur við ríkisstjórnina hafi aukist. Alkunna er að í kreppum og miklum mótbyr eykst fylgi við stjórnvöld. Dæmi um það eru vel þekkt þegar styrjaldir geisa. Bush Bandaríkjaforseti hafði yfir 80 prósent þjóðarinnar á bak við sig þegar Flóastríðið stóð sem hæst og Margret Thatcher sópaði til sín fylgi þegar Bretland fór í Falklandseyjastríðið á sínum tíma.
Að flokkarnir sem mynda núverandi ríkisstjórn skuli ekki hafa meira fylgi en raun ber vitni við þær ótrúlegu aðstæður sem uppi eru í þjóðfélaginu um þessar mundir ætti að valda þeim þungum áhyggjum. Níðurstöður nýrrar könnunar MMR er nær alveg eins og könnun Gallup:
Sjálfstæðisflokkur fengi 23,5 prósent atkvæða og 15 þingmenn kjörna. Í síðustu kosningum hlaut flokkurinn 25,3 prósent fylgi og fékk 16 menn kjörna á Alþingi. Fylgið er hið sama í báðum könnunum.
Vinstri græn fengju 13,3 prósent í könnun Gallup en 12,3 prósent hjá MMR og 9 menn kjörna. Í kosningunum var fylgið 16,9 prósent sem gef flokknum 11 þingsæti. Nær fjórði hver kjósandi flokksins hefur yfirgefið hann á kjörtímabilinu.
Framsókn fengi 8,1 prósent samkvæmt Gallup og 6 þingmenn kjörna. MMR mælir fylgið aðeins hærra. Í kosningunum fékk flokkurinn 10,7 prósent og 8 menn kjörna. Tapar tveimur þingsætum, væntanlega á höfuðborgarsvæðinu.
Samtals þessu hlytu stjórnarflokkarnir því einungis 30 þingmenn kjörna. Þar með væri stjórnin fallin eins og hefur verið niðurstaða allra skoðanakannana í eitt og hálft ár. Núverandi ófremdarástand nær ekki að hjálpa stjórninni til að halda velli ef marka má umræddar skoðanakannanir.
Samkvæmt könnun Gallup fengju stjórnarandstöðuflokkarnir þingmenn kjörna sem hér segir: Samfylkingin tíu fulltrúa, Miðflokkur átta, Viðreisn einnig átta og Píratar sjö menn. Samtals 33 þingmenn.
Flokkur fólksins félli út af þingi og Sósíalistaflokkurinn fengi ekki nægilegt fylgi til að koma að manni.