Galin stýrivaxtahækkun virkar eins og olía á eld

Allir seðlabankar á meginlandi Evrópu halda stýrivöxtum óbreyttum þrátt fyrir verðbólgu. Á sama tíma fer Seðlabanki Íslands í þveröfuga átt, hækkar stýrivexti um 75 punkta og reynir að rökstyðja gjörninginn með ótrúverðugum hætti. Öll ríki Vesturlanda eru að kljást við óæskilega verðbólgu en það eru einungis Íslendingar sem bregðast við með gamaldags og úreltum hætti. Hvernig má það vera að Íslendingar einir hækki stýrivexti á meðan aðrar þjóðir sjá hag sínum best borgið með því að halda vöxtum óbreyttum?

Svarið hlýtur að byggjast á því að Ásgeir Jónsson, seðlabankastjóri og „rithöfundur“, sé eini seðlabankastjórinn sem veit hvað hann er að gera en allir hinir illa að sér og beinlínis vitlausir! Lesendur geta velt því fyrir sér hvort það er líkleg skýring.

Ásgeir fékk tækifæri til að útskýra þessa ákvörðun fyrir þjóðinni í Kastljósi ríkissjónvarpsins í gærkvöldi. Ekki tókst honum vel upp. Greinilegt var að seðlabankastjóra leið ekki vel með þessa ákvörðun, sem vonlegt er.

Seðlabankinn hefur nú hringlað með vaxtaákvarðanir með afgerandi hætti sem veldur almenningi og fyrirtækjum skaða. Hringlið bitnar ekki síst á ungu fólki sem er að eignast sínar fyrstu íbúðir og hefur trúað yfirlýsingum seðlabankastjóra um að Íslendingar séu að sigla inn í lágvaxtatíma. Svo líða nokkrir mánuðir, vextir rjúka upp og frekari hækkunum er hótað. Almennt er talið varðandi peningastjórn að hollt sé fyrir hagkerfið að vaxtabreytingar til lækkunar eða hækkunar komi fram hægt og skynsamlega en ekki í gusum eins og nú hefur gerst á Íslandi.

Í aðdraganda Alþingiskosninga fyrir fimm mánuðum hamraði Sjálfstæðisflokkurinn á því að hann stæði fyrir stöðugleika og þess vegna ætti fólk að kjósa hann. Auk væri flokkurinn eina trygging kjósenda til að koma í veg fyrir vinstri stjórn á Íslandi. Á þeim tíma sat flokkurinn reyndar í vinstri stjórn formanns Vinstri grænna.

Nú hefur verið mynduð ný vinstri stjórn, og enn á ný undir forsæti formanns sósíalista, með Sjálfstæðisflokkinn sem burðarás. Stöðugleikinn, sem átti að vera svo vel tryggður með áframhaldandi aðkomu Sjálfstæðisflokksins að ríkisstjórn, er á góðri leið með að fjúka út í veður og vind.

Bjarni Benediktsson formaður flokksins segir nú að vissulega sé það vont að verðbólgan hafi látið á sér kræla, en hún er komin í 6 prósent. Ekki hyggst hann þó aðhafast neitt til að sporna við verðbólgunni og þeim búsifjum sem almenningur og fyrirtæki verða fyrir vegna hennar. Honum finnst ekki taka því enda muni þetta jafna sig smám saman.

Á einungis nokkrum mánuðum hefur Sjálfstæðisflokknum þannig tekist að svíkja öll helstu kosningaloforð sín.

Fjármálaráðherra veður villur vega með því að aðhafast ekki neitt. Nú hefði ríkisvaldið einmitt átt að grípa inn í hratt og örugglega með því að lækka tímabundið álögur á innfluttar vörur sem skipta þjóðina miklu máli. Á það ekki síst við um eldsneyti og olíuvörur sem ríkið skattleggur langt umfram annan innflutning. Skilvirkasta leiðin til að sporna gegn verðbólgu núna væri að lækka tímabundið álögur á olíuvörur en það myndi slá á verðbólgu strax. En fjármálaráðherrann ætlar ekki að hafast neitt að. Þó að stýrivextir stórhækki á Íslandi mun það ekki hafa nein áhrif á innflutningsverðlag sem er helsta vandamálið sem við er að fást.

Öllum ætti að vera ljóst að árið 2022 mun einkennast af stórum og erfiðum kjarasamningum. Leyfi stjórnvöld verðbólgu að æða áfram án þess að bregðast við og horfi upp á Seðlabanka Íslands gera alvarleg mistök með vanhugsuðum vaxtahækkunum munu kjarasamningar síðar á árinu lenda í algerum hnút. Jafnvel rembihnút sem ríkisstjórn og Seðlabankanum verður kennt um. Ráðamenn verða að átta sig á þessu sem fyrst. Annars fer illa.

- Ólafur Arnarson