Gagnrýnir að logið sé í fermingarbörn

Dr. Magnús S. Magnússon sálfræðingur átelur kirkjunnar fólk og þá ekki síst biskup Íslands, Agnesi M. Sigurðardóttur, fyrir að ýta með blekkingum undir heilaskaða á íslenskum börnum.

Magnús er rannsóknarprófessor á sviði atferlisvísinda. Útvarpsþátturinn Harmageddon birti viðtal við Magnús 28. janúar síðastliðnum þar sem Magnús hjólaði m.a. í þá ábyrgð þjóðkirkjunnar að segja ófullveðja fermingarbörnum ósatt. Ekkert grín geti orðið að vinda ofan af slíku. Hann telur að flestir íslenskir prestar séu orðnir trúlausir, ekki síst vegna nýrrar þekkingar í biblíufræðum. Prestarnir komist þó ekki út úr villu sinni efnahagslega. Ríkið eigi að greiða prestum sem það hafi skaðað bætur. Vegna laga um þjóðkirkju sé ríkið ábyrgt fyrir trúarlegum blekkingum hér á landi.

Magnús sagði í viðtalinu við Harmageddon að trúarbrögð væru einhver öflugustu atferlisstjórnunartæki sem maðurinn hefði fundið upp. Trúin á helvíti sé stjórnunartæki. Hið svokallaða trúfrelsi skarist gjarnan á við blekkingarfrelsi sem sé bannað og fari í bága við siðlegar skyldur. Telur Magnús að stjórnarskráin heimili ekki iðkun trúar ef það bitnar á siðferðislegum skyldum.

Til umræðu var m.a. í Harmageddon eftir því sem fram kom í þættinum að Agnes, biskup Íslands hagi boðið kunnum hommahatara til Íslands að halda fyrirlestur, mann sem predikar gegn vísindum. Magnús gagnrýndi biskup Íslands, Agnesi, harðlega í þættinum, þá ekki síst fyrir að halda því fram í útvarpsviðtali vegna málsins á sínum tíma að biblían væri orð guðs. Vitaskuld væri biblían ekki orð guðs, alþjóðleg þekking á grundvallarritum trúarlegum hefði aukist mjög síðari ár. Hefðu æ fleiri biblíufræðingar greint vísvitandi blekkingar þessara bóka. Að kalla biblíuna orð guðs væri algjör della. Prófessorinn spurði hvernig kona hjá ríkinu með milljón krónur í laun á mánuði gæti sagt svona hluti í útvarpinu og þyrfti ekki að svara fyrir. Þjóðkirkjan íslenska stæði fyrir linnulausun blekkingum.

Magnús játaði þegar Frosti Logason, umsjónarmaður Harmageddon, spurði hvort ríkiskirkjan ylli heilaskaða. Hann sagðist oft hafa haldið því fram en prófessorinn heldur fyrirlestra víða um heim. Magnús telur þó að þessum blekkingum muni linna, enda sé Evrópa að losna undan trúarbrögðum á ótrúlega skömmum tíma. Aðeins þar sem menntunarstig sé mjög lágt og í Bandaríkjunum haldi menn villum á lofti með ömurlegum afleiðingum. Það að heilaþvo ófullveðja 14 ára börn í fermingarundirbúningi samræmist ekki góðu siðferði.

Magnús staðhæfði að í toppvísindaakademíum Bandaríkjanna og Bretlands hafni nú um 90% meðlima trú á guð, enginn trúi lengur á Guð Abrahams. Þá vitnaði dr. Magnús í nýja vísindagrein þar sem komi fram að hans sögn að yfirgnæfandi meirihluti presta í Svíþjóð og Danmörku sé trúlaus. Sennilega sé það eins með íslenska presta.  Íslenska ríkið beri „skelfilega“ mikla ábyrgð á að „þessir menn sem verða prestar hafi orðið trúaðir“. „Það er ríkisknúin vél í margar aldir“ sem leiðir til þessa, sagði Magnús. Ef ríkið beri ábyrgð á ógöngum presta beri því að greiða þeim bætur fremur en að þeir haldi áfram að skaða sjálfa sig eða aðra. Vitað sé að heilinn í okkur sé alltaf að bretyast. „Ef þú segir mér eitthvað og ég trúi því þá breytist heilinn.“ Ef hamrað sé á röngu orsakasamhengi breytist heilar fólks sem og sá hluti heimsins. Öldum saman hafi kirkjan  vitað að með því hamra á hindurvitnum inn í heila barna sé miög erfitt að losna undan þeim á ný. Það sé eins og árás á líkamann að reyna að losna við hindurvitni. Alvarleg sköddun geti orðið sem samræmist ekki almennu siðferði þegar þjóðkirkjan sem og önnur trúfélög brjóti þessar reglur en ríkið beri eitt ábyrgð á þjóðkirkjunni, sá sé munur ríkisskirkju og annarra trúfélaga. Hlusta má á allt viðtalið hér.

Framsókn veldur heilaskaða!

Hringbraut hafði samband við Davíð Þór Jónsson prest á Eskifirði og falaðist eftir viðbrögðum við ummælum Magnúsar. Ekki voru aðstæður fyrir viðtali við Davíð Þór sem er í hópi frjálslyndra og gagnrýninna presta hér á landi. Davíð Þór vísaði þó til predikunar sem hann flutti sl. sunnudag í Fáskrúðsfjarðarkirkju vegna orðræðu sem hann telur nú stefnt gegn þjóðkirkjunni.

Í predikun Davíðs Þórs segir m.a. þetta: „Framsóknarflokkurinn veldur heilaskaða í ungum börnum. Margt bendir til þess að það að sitja undir málflutningi framsóknarmanna geti haft skaðleg áhrif á heila hlustenda sem í mörgum tilfellum getur verið erfitt að snúa við. Flestir leiðtoga Framsóknarflokksins vita auk þess sjálfir mætavel að áróðurinn er bara hættulegar lygar og blekking, en samt halda þeir uppteknum hætti í trássi við betri vitund bara af því að þeir kunna ekki að hætta þessu.“

Svo segir Davíð Þór að vonandi blöskri kirkjugestum málflutningur af þessu tagi. „Þau ykkar sem hlóu gerðu það vonandi út af því hvað hann var fáránlega öfgakenndur. Ég held að það skipti engu máli hvar maður er í pólitík, þegar svona er talað segir það meira um mælandann en umræðuefnið. Ég held að jafnvel einörðustu andstæðingum Framsóknarflokksins þætti málstað sínum lítill greiði gerður með svona glórulausri rætni og ofstæki.“

Predikun Davíðs Þórs má lesa í heild hér.

Fréttaskýring: Björn Þorláksson