Dýrmætasta gjöfin, lífið sjálft, var til umræðu í einkar persónulegum og einlægum þætti af Fólk með Sirrý á sjónvarpsstöðinni Hringbraut í gærkvöld, en þar voru líffæraþegar og líffæragjafar í aðalhlutverki.
Í þættinum var spurt: Hversu mikið erum við í raun tilbúin að gefa af okkur? Sirrý fékk til sín fólk sem hefur reynslu af því að gefa líffæri eða fá líffæri að gjöf. Og dæmisögurnar eru margar: Hannes Þórisson kom fram í þættinum, en hann fékk nýra úr móður sinni í bernsku. Hann þarf nú annað nýra og bíður tilbúinn með ferðatöskuna þegar kallið kemur. Önnur sagan var af Kjartani Birgissyni sem fékk nýtt hjarta og þar með annað líf. Hann fór í aðgerð til Svíðþjóðar og kallar bróðir hans hann nú ,,Bróðir minn Lánshjarta\" í gríni. Þriðja sagan var af hjónum sem sögðu sögu sína í þættinum, en þau segjast \"vera eitt\" í orðsins fyllstu merkingu því eiginkonan gaf manni sínum nýra úr sér. Og ung kona fékk annað líf þegar grætt var í hana ný lifur. Hún hefur nú fengið heilsuna á ný og eignast barn eftir aðgerðina.
Þá kynntumst við manni sem gaf vinnufélaga sínu nýra. Og móður ungs manns, sem lést í slysi, sagði frá því að líffæragjafir hans björguðu fimm mannslífum.
Þáttur gærkvöldsins, sem hægt er að nálgast hér á hringbraut.is var með öðrum orðum um fólk sem er tilbúið að opna hjarta sitt og gefa af sér.