Í þættinum Matur og Heimili í kvöld heimsækir Sjöfn Þórðar veitingastaðinn Samúelsson í nýju mathöllinni á Selfossi sem áður hýsti Mjólkurbú Flóamanna. Þar hittir hún Árna Bergþór Hafdal Bjarnason veitingamann og eiganda staðarins. En nafnið á staðnum Samúelson á vísun sína í Guðjón Samúelson húsameistara ríkisins sem á heiðurinn að hönnuninni á Mjólkurbúi Flóamanna, Hallgrímskirkju, Landsbankanum og fleiri merkum byggingum og skemmtilegt að veitingastaðurinn sé skírður í höfuðið á hönnuði hússins sem staðinn hýsir.
„Hér er verið að halda í gamla tímann, eins og þið sjáið þegar þið komið í nýja miðbæinn, allt glæný eldgömul hús. En þetta eru allt saman endurbyggð íslensk hús,“segir Árni og segir jafnframt að það sé verið að vekja þá umgjörð til lífs inni í mathöllinni líka.
Sjöfn fær innsýn í forsögu staðarins, hönnunina á staðnum og matarflóruna sem Árni og hans fólk á Samúelsson bjóða uppá. „Aðaláherslan í matargerðinni er einföld, hún er gæði,“segir Árni og bætir við að boðið sé uppá lítinn matseðil en afar góðan mat. „Við erum einungis að taka inn fyrsta flokks hráefni, reynum að gera þetta öðruvísi, reynum að hafa mikla liti, mikinn ferskleika og mikið af jurtum, til að mynda sprettur.“
Til að starta staðnum fékk Árni sex vikur og var kominn með ákveðna mynd af matseðlinum um það bil mánuð fyrir opnun. „En við bjuggum til allar uppskriftir og mat á einum degi, daginn fyrir opnun,“segir Árni og ótrúlega stoltur hversu vel tókst til á svona skömmum tíma.
Lifandi og skemmtileg heimsókn Sjafnar á Samúelsson í mathöllina á Selfossi, Mjólkurbú Flóamanna í þættinum Matur og Heimili á Hringbraut í kvöld klukkan 19.00 og aftur klukkan 21.00.