Viðskiptaráð Íslands tilkynnti að fyrsta konan í 99 ára sögu ráðsins (sem hét áður Verslunarráð Íslands) hefði verið kosin. Um er að ræða Katrínu Olgu Jóhannesdóttur sem er einn af eigendum Já.is.
Þetta vakti nokkra athygli og var hún í viðtölum sjónvarpsstöðvanna í gærkveldi þar sem hún var spurð hverju það breytti að svo gamalgróið ráð fengi loks konu í formennsku. Ekki var að heyra að mikilla breytinga væri að vænta en hún sagðist vilja vera fyrirmynd og lagði áherslu á fjölbreytni.
Nokkur undanfarin ár hafa staðið yfir viðræður milli Samtaka atvinnulífsins (SA) og Viðskiptaráðs Íslands (VÍ) um sameiningu þessara samtaka í atvinnulífinu þannig að VÍ rynni inn í SA undir nafni SA. Það hefur verið útbreidd skoðun að óþarfi sé að hafa umrædda starfsemi aðgreinda. Miklar sameiningar hafa orðið á vettvangi atvinnulífsins og væri yfirtaka SA á VÍ alveg í samræmi við þá þróun sem verið hefur um árabil.
Nýlega sameinuðust tvenn samtök í sjávarútvegi. Þegar Samtök iðnaðarins urðu til á sínum tíma þá runnu saman 6 samtök í margvíslegum iðnaði, auk þess sem fleiri hafa bæst við á seinni árum. Þegar SA var stofnað þá var einnig um verulega sameiningu að ræða. Eins hefur orðið margvísleg tiltekt í launþegahreyfingunni, hjá lífeyrissjóðum, sveitarfélögum og víða í samfélaginu. Í þeim anda væri rökrétt að VÍ rynni inn í SA. Stórt skref var stigið í fyrra þegar VÍ flutti inn á skrifstofu SA í Borgartúni 35. Ætla má að þar sé um að ræða mikilvægan áfanga til að ljúka þessu verki.
Margt bendir til þess að Katrín Olga verði því ekki einungis fyrsta konan sem gegnir formennsku í VÍ heldur einnig síðasti formaður ráðsins. Náttfari spáir því að eftir að haldið hefur verið upp á 100 ára afmæli VÍ á næsta ári, verði verkinu lokið með yfirtöku SA á starfsemi VÍ.
Við kosningu til stjórnar VÍ var mikil áhersla lögð á að velja konur í stjórnina. Óhætt er að segja að talsverð kosningabarátta hafi farið fram. Þrátt fyrir það náðu einungis 6 konur kjöri í 19 manna aðalstjórn. Auk Katrínar Olgu er þar um að ræða Birnu Einarsdóttur, Helgu Óttarsdóttur, Hrund Rúdólfsdóttur, Lindu Jónsdóttur og Sigrúnu Rögnu Ólafsdóttur. Í 18 manna varastjórn náður 4 konur kjöri. Þannig einungis 10 konur af þeim 37 sem í kjöri voru eða 27%.
Þetta hljóta að vera talsverð vonbrigði fyrir Katrínu Olgu, fyrsta kvenkynsformann þessa karlaklúbbs og trúlega síðasta formann ráðsins. Hún kemst þó alla vega í sögubækur VÍ fyrir hvoru tveggja.