Fjármálaráðherra hefur reynt að gera lítið úr þingmanni Pírata sem velti upp meintum hagsmunum Bjarna af setu í stjórn asíska innviðafjárfestingarbankans AIIB. Bjarni og handlangarar hans í flokknum hafa svarað Birni með hroka og haldið því fram að hann hafi slegið vindhögg.
En er það endilega þannig? Rétt er að stjórnarlaun eru ekki greidd. En ætli Björn Leví viti ekki meira? Er hann ekki að draga Bjarna vísvitandi fram á völlinn?
Háttsettur opinber embættismaður sem hefur gegnt sambærilegum stjórnarsetum á vegur ríkisins, hefur af þessu tilefni lætt því að Dagfara hvernig stjórnarmönnum í sambærilegum stofnunum er umbunað. Menn munu gæta þess að þyggja ekki bein stjórnarlaun - enda þyrfti að greiða af þeim tekjuskatt.
Þessi fyrrverandi embættismaður hefur upplýst að í stað stjórnarlauna fái menn afhent greiðslukort frá viðkomandi stofnun sem þeim sé ætlað að nota til greiðslu hvers kyns útgjalda sem litið er á sem kostnað vegna stjórnarstarfa. Þeim sé aldrei gert að sýna gögn eða rökstyðja “kostnaðinn”. Aldrei sé spurt um neitt. Og vitanlega er ekki greiddur skattur af þeim verðmætum sem tekið er á móti með þessum hætti. Talið er að með þessu fyrirkomulagi náist drjúg hlunnindi út úr stjórnarsetum. Ætli Björn Leví viti þetta ekki og ætli sér að veiða ráðherra í gildru?
Það skal tekið fram að embættismaðurinn fyrrverandi sýndi engin gögn þessu til sönnunar. En engin ástæða er til að rengja þennan mann.
Ef Björn Leví verður aðeins nákvæmari í gagnrýni sinni og fyrirspurn þá er aldrei að vita hvaða ormagryfju honum gæti tekist að opna. Ekki bara varðandi þennan banka heldur einnig margar aðrar alþjóðastofnanir sem Ísland tekur þátt í og skipar útvalda í “ólaunaðar” stjórnir og nefndir.
Bjarni Ben og aðrir skyldu varast að tala niður til Björns Leví, þingmanns Pírata. Hann getur bitið.
Hitt er svo annað mál að þátttaka Íslands í þessum Asíubanka með núll-komma-núllnúll prósent eignarhald er hreinn og klár fíflagangur sem mun ekki skila Íslandi neinu.
Eða eigum við frekar að tala um minnimáttarkennd eða mont?