Það var um Verslunarmannahelgi árið 1986, ég var 23 ára. Ég hafði farið með hóp af fólki í Vaglaskóg. Engin skipulögð hátíðahöld voru í skóginum en ungt fólk hafði fjölmennt í skóginn svo þar voru mörg þúsund manns. Á fylleríi. Ég líka.
Samferðafólk mitt entist fram á laugardag, þá týndust þau heim hvert af öðru. En ekki ég. Vandinn var að þau höfðu átt tjaldið og allan viðlegubúnað svo þarna var ég staddur allslaus, utan brennivíns. Það olli mér engum áhyggjum, hafði áður farið í gegnum svona helgi á brennivíninu einu saman.
Á sunnudagskvöldinu birtust rútur í skóginum. Tónlistarfólk hafði ætlað að ná sér í aukapening með því að halda hátíð að Laugum í Reykjadal en þangað höfðu fáir mætt, fjöldinn fór í Vaglaskóg. Til að reyna að bjarga fjárhagnum voru rúturnar sendar til að sækja fólk í Vaglaskóg. Margir þáðu boðið og þar á meðal ég.
Þegar langt var liðið á nóttina og styttist í rútuferð til baka í Vaglaskóg fylltist ég viðbjóði á sjálfum mér. Það var ekkert einstakt atvik sem orsakaði þetta. Bara fannst ég hallærislegur að veltast um á fylleríi orðinn 23 ára.
Það var kallað í mig og rekið á eftir mér í rútuna. En ég afþakkaði farið, ég ætlaði að ganga til baka. Þetta var skyndiákvörðun tekin í einhverri sjálfsrefsingarstemmingu. Ég hafði óljósa hugmynd um að vegalengdin á milli Lauga og Vaglaskóg væru svona hér um bil álíka langt og maraþonhlaup eða um 40 kílómetrar til og frá einhverjum metrum. Sem sagt vegalengd sem að fólk hleypur. Svo ég hljóp af stað.
Að skokka frá Laugum suður að gatnamótunum þar sem vegurinn yfir Fljótsheiði byrjar var létt og þægilegt. Síðan lagði ég á heiðina. Ég hafði ekki skokkað marga metra upp í móti þegar tvö atriði fóru segja til sín. Í fyrsta lagi að langhlaup hafði ég alltaf haft óbeit á og aldrei stundað. Og í öðru lagi að það er ekki góður undirbúningur fyrir maraþonhlaup að lifa bara á brennivíni rúma tvo sólarhringa áður en lagt er af stað. En nú var ég sem sagt lagður af stað í maraþonhlaup, meðal annars yfir eins og eina heiði.
En þarna í byrjun heiðarinnar var ég enn fullur af sjálfsóbeit með tilheyrandi refsiþörf svo það veitti kraft til að halda dálitlum dampi þó að stíllinn hafi tæpast flokkast undir hlaup. Fljótlega byrjaði vegurinn að sveigja til suðurs til að hringa sig upp heiðina. En ég taldi að einfaldara væri að fara beint vestur yfir heiðina og fann mér til gleði slóða sem að einmitt stefndi í vesturátt. Eftir honum arkaði ég. Lengi. Þangað til að hann endaði. Ég veit nú að þá var ég kominn á stað sem heitir Kvígindisdalur þar sem fyrr á öldum stóð heiðarbýli. Nú var þarna ekkert. Nema hrossastóð. Mér stendur stuggur af hestum, er reyndar dauðhræddur við þá. Svo ég tók á sprett. Stóðið líka. Það var ójafn leikur. Í örvæntingu minni beygði ég út af slóðanum og lenti þar á kafi í mýrarfeni. Hrossin staðnæmdust við mýrina og horfðu á mig, glottandi. Ég hata hesta.
Ég óð yfir mýrina og klöngraðist svo yfir mela og þúfur þar til ég rambaði á þjóðveginn aftur. Eftir honum gekk ég býsna bugaður eftir viðureign mína við hrossastóðið og nú fór næringarleysið og brennivínsneyslan að segja til sín. Hálfnaður upp Fljótsheiði varð ég rosalega timbraður. Út í vegarkanti ældi ég galli og brennivíni. Síðan heltók þorstinn mig. Hvergi var lækjarspræna sjáanleg þarna upp á heiðinni. Svo ég gerði mitt besta að herða mig upp og drattaðist áfram.
Þegar upp á heiðina var komið og það byrjaði að halla undan fæti opnaðist Bárðardalur í allri sinni dýrð. Morgunsólin skein skært, það var ekki ský á himni og blankalogn. Fegurðin var dýrðleg. Og mitt í þessari fallegu mynd glampaði á Goðafoss. Ofan af heiðinni sá maður vatnið frussast ískalt þar sem það steyptist fram af bjargbrúninni. Þetta var eins í amerískri gosauglýsingu. Ég starði á fossinn, hausverkurinn var að ganga frá mér og þorstinn að gera mig sturlaðan. En engir voru lækirnir þarna í heiðinni þar sem þjóðvegurinn lá. Nú fór fossinn í taugarnar á mér, líka allar gosauglýsingar, ég varð fokvondur. Bölvaði pepsi, kók og Goðafossi í sand og ösku og í reiðikasti byrjaði ég að skokka niður heiðina. Það eru kannski ýkjur að kalla það skokk, skriðþunginn við það að fara niður í móti bjó til hlaupastíl sem ekki er gott að lýsa, fólk verður að upplifa til að skilja.
Ég skokkaði fram hjá Fosshóli og yfir brúnna. Það þýddi lítið að banka uppá í sjoppunni við Fosshól, klukkan var rétt rúmlega sjö um morguninn og ég þar fyrir utan peningalaus. Skjálfandafljót reyndist ekki mjög ákjósanlegt til vatnsdrykkju og tíu árum seinna sannreyndi ég að vatnið þar er vont þegar ég sat þar fastur í kajak á hvolfi. Handan við brúnna var ég kominn á jafnsléttu og þar með ekki með skriðþungan niður í móti lengur. Reiðin rann af mér og við tóku timburmennirnir aftur. Ég rétt drattaðist áfram og sá fram undan lækjarsprænur. Þangað komst ég, hrundi niður vegarkantinn og skreið að læknum. Þar stakk ég hausnum á kaf. Vatnið var vont, þetta var í hálfgerðri mýri sem mengaði vatnið. En að kæla hausinn hjálpaði.
Ég rölti rólega eftir þjóðveginum. Nú fóru að koma bílar af og til en engin umferð hafði verið um heiðina meðan ég var þar. Það hvarflaði ekki að mér að biðja um far, ég hafði ákveðið að ganga þetta og því yrði ekki breytt. Ég kom að Ljósavatni þegar klukkan var að nálgast níu. Þar voru fínir lækir með úrvals vatni sem ég drakk af áfergju. Sólin var orðin það heit að ég fann mér góðan grasbala við vatnið, lagðist þar og sofnaði. Áður en ég lagðist fór ég að sjálfsögðu úr hverri spjör svo þetta yrði sólbað í leiðinni. Þarna lá ég nakinn og sást ágætlega frá þjóðveginum en enginn truflaði mig. Guði sé lof fyrir að þetta var fyrir tíma snjallsíma og Internetsins.
Ég vaknaði upp úr hádegi. Sólbaðið hafði virkað vel, ég sá að ég var mun brúnni framan á lærunum en aftan. Það gerði mig glaðan og fyllti mig orku. Gangan í gegnum Ljósavatnsskarð var leiðinleg, það var látlaus bílaumferð. Af og til stöðvuðu bílar og farþegar þeirra gerðu sig líklega til að bjóða mér far. Ég urraði einhver orð sem að ég skildi varla sjálfur en tónninn dugði alveg til að fólk áttaði sig á því að ég vildi alls ekki far.
Ég kom í Vaglaskóg seinnipartinn, fór þar í símaklefann og hringdi í mömmu. Að sjálfsögðu kom hún að sækja strákinn sinn. Þegar heim var komið komst ég að því að ég var búinn að léttast um þrjú kíló og bæti vel við brúnkuna. Það dugði til að gera þetta að bestu Verslunarmannahelgi sem ég hafði upplifað.