Fylkingar Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík nötra

Mikil harka er hlaupin í prófkjörsbaráttu Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík þegar tvær vikur eru til stefnu og ljóst að 26 manns hafa boðið sig fram. Frekar lítið er um spennandi framboð eins og vonast hafði verið eftir. Þannig guggnaði Frosti Logason, útvarpsmaðurinn vinsæli, þegar á hólminn var komið. Honum mun ekki hafa litist á blikuna.

Átök milli fylking eru að skerpast. Hópurinn í kringum Guðlaug Þór Þórðarson stendur sterkt, Hildi Björnsdóttur til lítillar ánægju. Ragnhildur Alda Vilhjálmsdóttir er talin hafa styrkt sig í baráttunni um fyrsta sætið. Hún stýrði kosningabaráttu Guðlaugs Þórs fyrir alþingiskosningarnar í fyrra og þótti standa sig með miklum ágætum. Kosningavél Guðlaugs Þórs malar fyrir hana og einnig aðra frambjóðendur sem eru taldir eiga góða möguleika á að hreppa einhver af sex efstu sætunum í pófkjörinu. Gildir það til dæmis um borgarfulltrúana Björn Gíslason og Mörtu Guðjónsdóttur sem eru í stuðningsmannaliði Guðlaugs Þórs.

Hildur Björnsdóttir sækist einnig eftir fyrsta sætinu. Hún hefur reynt að staðsetja sig milli stríðandi fylkinga í borginni. Ekki gengur það vel því að vitað er að hún er í stuðningsmannahópi Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur og þar með studd að flokkseigendafélaginu sem Áslaug reiddi sig á síðastliðið vor þegar hún tapaði einvígi um forystu í þingkosningunum fyrir Guðlaugi Þór.

Flokksmenn hafa að undanförnu rifjað upp að eiginmaður Hildar, Jón Skaftason, er náinn samstarfsmaður Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og gegnir trúnaðarstörfum fyrir hann. Nú er vitanlega ekkert sé við það að athuga. Stórir hópar eldri sjálfstæðismanna eru hins vegar haldnir því heilkenni að leggja fæð á Jón Ásgeir frá gamalli tíð, án þess að hafa sérstaka ástæðu til þess. Náin tengsl við Jón Ásgeir eru nú notuð gegn Hildi og spurt hvort menn vilji hann sem aftursætisbílstjóra hjá forystu flokksins í borginni.

Takist Ragnhildi Öldu Vilhjálmsdóttur að vinna einvígið um fyrsta sætið má fullvíst telja að Hildur Björnsdóttir skipi annað sætið. Því er spáð að í næstu sæti þar á eftir komi Birna Hafstein, Björn Gíslason, Marta Guðjónsdóttir og Friðjón Friðjónsson. Samkvæmt nýlegri skoðanakönnun Maskínu fyrir Stöð 2 fengi flokkurinn sex borgarfulltrúa kjörna, það er að segja þá sem hér eru nefndir.

Flokkurinn fengi þá aðra sex varaborgarfulltrúa sem mynduðu þar með borgarstjórnarflokk Sjálfstæðisflokksins. Vitanlega er einnig sóst eftir þeim sætum. Ætla má að nokkrir af eftirtöldum frambjóðendum gætu skipað þann hóp: Helga Margrét Marzelíusardóttir, Valgerður Sigurðardóttir, Þorkell Sigurlaugsson, Kjartan Magnússon og Róbert Aron Magnússon.

Spyrja má hvers vegna Friðjón Friðjónsson er talinn líklegur til að ná einu af sex efstu sætunum. Hann hefur áður boðið sig fram í prófkjörum án þess að ná tilsettum árangri. Bæði í þingkosningum í Suðvesturkjördæmi áður og í Reykjavík í fyrra. Svarið við þeirri spurningu er að Friðjón er fyrrum aðstoðarmaður Bjarna Benediktssonar og hluti af þeirri klíku sem talað er um sem flokkseigendafélag Sjálfstæðisflokksins. Menn trúa því að áhrif formannsins hljóti að vera þau að fyrrum aðstoðarmaður hans og náinn vinur hljóti að fá þokkalega kosningu í prófkjörinu. Verði ekki svo mun það að vekja mikla athygli – og spurningar.

Í borgarstjórnarkosningunum vorið 2018 hlaut Sjálfstæðisflokkurinn 30,8 prósent atkvæða sem var næstlélegasti árangur flokksins í sögunni. Einungis var um lakari árangur að ræða í borgarstjórnarkosningunum fjórum árum áður eða 25,5 prósent. Í skoðanakönnun Maskínu nýlega mældist flokkurinn með 21.8 prósent. Fátt bendir til þess að flokkurinn muni rétta hlut sinn í komandi kosningum enda er samstaða innan flokksins í borginni lítil og nánast hægt að tala um stríðandi fylkingar. Þá þykir málefnastaða flokksins veik og vígstaðan fjarri því að vera sigurstrangleg. Dagur verður áfram borgarstjóri.

- Ólafur Arnarson