Helstu tíðindi nýrrar skoðanakönnunar eru þau að ríkisstjórnarflokkarnir ná ekki að hysja upp fylgi sitt þrátt fyrir alla þá athygli sem ráðherrar hafa fengið út á það neyðarástand sem ríkir í landinu vegna veirunnar. Sagan kennir að þegar hörmungar ganga yfir þjóðir og mikill mótbyr, þá vex stuðningur við stjórnarflokka, alla vega tímabundið. Því er ekki til að dreifa á Íslandi um þessar mundir.
Sjálfstæðisflokkurinn mælist með 22,7 prósent fylgi sem er minna en í síðustu könnun og einum tíunda minna en í Alþingiskosningunum haustið 2017. Þessi niðurstaða skilaði flokknum fimmtán þingmönnum í stað sextán í kosningunum.
Vinstri græn mælast nú með 10,4 prósent sem er minna en í síðustu könnun og mun lakara en í kosningunum 2017. Þá hlaut flokkurinn 16,9 prósent og ellefu þingmenn en fengi nú sjö þingmenn kjörna. Fylgistapið það sem af er kjörtímabili nemur nær 40 prósent sem getur vart talist mikil traustsyfirlýsing við forsætisráðherrann og formann Vinstri grænna.
Framsóknarflokkurinn bætir við sig frá síðstu könnun, fengi 9,8 prósent atkvæða og sjö menn kjörna í stað átta manna í kosningunum. Stjórnarflokkarnir fengju því samtals tuttuguogníu þingmenn miðað við niðurstöðu þessarar nýju könnunar MMR. Þar með væri hún fallin og vantaði þrjá þingmenn upp á að halda meirihluta á þinginu.
Samfylkingin næði níu þingmönnum og bætti við sig tveimur sætum, Viðreisn fengi sjö menn kjörna og bætti við sig þremur, Píratar næðu átta þingsætum í stað sex í kosningunum. Þannig bættu Evrópusinnuðu flokkarnir við sig sjö þingsætum og fengju samtals tuttuguogfjóra menn kjörna á Alþingi. Sú þróun er athyglisverð.
Miðflokkurinn er með 9,5 prósent fylgi samkvæmt könnun MMR, fengi sex menn kjörna og tapaði einum. Flokkur fólksins dytti út af þingi en Sósíalistaflokkurinn mælist nú inni með 5,6 prósent kjörfylgi.