Fylgi ríkisstjórnarflokkanna hverfur hratt: katrín er rúin trausti og ætti að hætta

Stjórnarflokkarnir hafa tapað ellefu þingsætum frá síðustu kosningum ef marka má nýja skoðanakönnun sem Fréttablaðið birtir nú um helgina og gerð er dagana 10. till 15. janúar. Í upphafi kjörtímabilsins fyrir rúmum tveimur árum höfðu stjórnarflokkarnir 35 þingmenn á bak við sig en einungis 24 þingmenn núna. Stjórnin er því kolfallin samkvæmt þessu eins og reyndar allt síðast liðið ár en sennilega hefur útlitið aldrei verið eins svart og núna.

Vinstri græn eru komin niður í 8,3% fylgi en höfðu 16,9% í kosningum. Meira en helmingur kjósenda VG hefur yfirgefið flokkinn. Það er hrikaleg niðurstaða fyrir Katrínu Jakobsdóttur formann flokksins og forsætisráðherra. Vandséð er að hún geti haldið áfram forystu í ríkisstjórn í ljósi þessarar niðurstöðu. Hún er rúin trausti og sama má segja um aðra helstu forystumenn VG, þau Svandísi Svavarsdóttur og Guðmund Inga Guðbrandsson. VG tapar 5 þingmönnum á kjörtímabilinu. Framsókn er komin niður í 7,8% og tapar 3 þingmönnum og er kominn niður í 5 þingmann sem allir kæmu úr landsbyggðarkjördæmum. Stuðningur við Framsókn á höfuðborgarsvæðinu er vart mælanlegur.

Sjálfstæðisflokkurinn fengi 19,1% samkvæmt skoðanakönnun Fréttablaðsins og 13 menn kjörna. Þrír þingmenn flokksins féllu miðað við þessa niðurstöðu, þeir Birgir Ármannsson formaður þingflokksins, Óli Björn Kárason og Vilhjálmur Árnason. Sjálfstæðisflokkurinn er að festast í fylgi kringum 20% eins og fram kemur í hverri skoðanakönnuninni á fætur annarri.

Þó rikisstjórnin sé löngu fallin miðað við allar skoðanakannanir er borin von að hún muni horfast í augu við þann raunveruleika og segja af sér. Staðan er sérstaklega erfið og vandræðaleg í ljósi þess að flokkur forsætisráðherra er í frjálsu falli og hefur misst meira en helming fylgis frá síðustu kosningum. Ríkisstjórnin mun þráast við og sitja fram á næsta ár þó fylgið haldi áfram að hrynja af henni. Fyrir því eru nýleg fordæmi þegar vinstri stjórn Jóhönnu Sigurðardóttur sat til ársins 2013 með þeim afleiðingum að stjórnarflokkarnir biðu stórskaða af og voru nærri því fallnir út af Alþingi í kosningunum 2013 og aftur 2016.

Það er reynsla sem ætti að vera hægt að læra af og staðreynd sem flestum ætti að vera í fersku minni.