Fúsk aldarinnar. verður davíð dreginn til ábyrgðar?

Þá er búið að birta opinberlega dýrasta símtal Íslandssögunnar. Símtalið milli Davíðs Oddssonar, þá seðlabankastjóra, og Geirs Haarde, þá forsætisráðherra, þegar Davíð tilkynnti Geir að hann ætlaði að nota allan gjaldeyrisvarasjóð þjóðarinnar til að bjarga Kaupþingi í fjóra eða fimm daga.

 

Deilur hafa staðið um það í mörg ár hvort birta ætti þetta símtal opinberlega eða ekki. Ýmsir hafa verið því mótfallnir og borið fyrir sig bankaleynd. Svo gerist það nú að Morgunblaðið birtir viðtalið. Sami Davíð Oddsson ritstýrir Morgunblaðinu eins og kunnugt er. Böndin hljóta að berast að honum þegar leitað er skýringa á því að Morgunblaðið hafi upptöku af þessu viðtali undir höndum en ekki aðrir. Óhætt er að draga þá ályktun að Davíð Oddsson hafi tekið upptöku af viðtalinu með sér úr Seðlabanka Íslands þegar hann var rekinn þaðan snemma árs 2009. Hafi hann gert það, þá var honum það óheimilt. Þá hefur hann tekið upptökuna ófrjálsri hendi. Ólögmætt er að ræna trúnaðargögnum frá opinberum stofnunum. Nú hlýtur að reyna á hvort hér hafi verið framið lögbrot og upplýst hve alvarlegt það getur talist samkvæmt lögum landsins. Þá mun einnig koma á daginn hvort Davíð Oddsson verður dreginn til ábyrgðar fyrir athæfið – eða hvort hann er hafinn yfir lög og rétt landsins. Geir Haarde var deginnn fyrir Landsrétt en Davíð hefur ekki enn verið dreginn neitt til ábyrgðar út af athöfnum sínum eða athafnaleysi í tengslum við Hrunið – eða “hið svokallaða hrun” eins og kann velur stundum að kalla þessa skelfilegu atburði.

 

Þegar rýnt er í símtal þeirra Davíðs og Geirs þá er að finna þar ótrúlegar setningar sem sýna hve alvarlegt ástandið var og hve ábyrgðarlaus ákvörðunin var um að lána allan gjaldeyrisvarasjóð þjóðarinnar í þeirri óvissu sem ríkti. Davíð segir m.a í þessu viðtali.: “......... við út af fyrir sig getum í dag skrapað saman 500 milljónum evra en náttúrlega, en erum þá komnir inn að beini og þá gætum við hjálpað Kaupþingi í einhverja fjóra fimm daga en þá getum við ekki hjálpað Landsbankanum líka, sko.”  Aðeins síðar bætir Davíð við: “Ég býst við því að við fáum ekki þessa peninga til baka.”  Og enn segir Davíð: “Því þá við megum ekki, sko, við megum ekki setja íslenska ríkið á galeiðuna.”  Geir svarar strax: “Nei, nei þetta eru 100 milljarðar, spítalinn og Sundabrautin.” Nokkru síðar bætir Davíð við þessari smekklegu setningu: “Já, en þá er að við erum ekki með pening í þetta. Við erum að fara alveg niður að rassgati ...........”

 

Umrætt símtal fór fram skömmu fyrir hádegi þann 6. október 2008. Síðdegis sama dag ávarpaði Geir Haarde þjóðina og bað Guð að blessa Ísland. Í millitíðinni hafði Seðlabanki Íslands tæmt gjaldeyrisvarasjóð þjóðarinnar “niður að rassgati”.

 

Margar spurningar vakna varðandi þau vinnubrögð sem Seðlabanki Íslands beitti í þessu örlagaríka máli. Flest bendir til þess að Davíð Oddsson hafi að mestu tekið þessa ákvörðun einn og að lítt rannsökuðu máli. Mikilvægt er að það verði alla vega upplýst hvort viðhöfð voru fagleg vinnubrögð við þessa ákvarðanatöku eða hvort var um einleik Davíðs að ræða. Ekkert verður fullyrt um það hér en þetta verður að upplýsa í kjölfar þess að umrætt viðtal hefur loks verið birt. Meðal spurninga sem verður að svara má nefna:

 

  1. Tók Davíð ákvörðun um lánveitinguna einn eða voru hinir tveir bankastjórar Seðlabanka Íslands með í ráðum. Birta þarf fundargerð  bankastjórnar.
  2. Var málið lagt fyrir bankaráð Seðlabanka Íslands en það er kosið af Alþingi. Ef svo, hvernig er fjallað um málið í fundargerð bankaráðs.
  3. Eru starfandi lánanefnd og áhættunefnd innan Seðlabanka Íslands. Ef svo, hver var aðkoma þeirra að þessai örlagaríku ákvörðun.
  4. Seðlabaninn hlýtur að hafa haft í gildi verklagsreglur og leiðbeiningar um góða stjórnarhætti á þessum tíma. Hvernig rýmar ákvarðanaferlið í þessu máli við slíkar reglur?

 

Fyrir liggur að Seðlabanki Íslands hefur tapað tugum milljarða á þessum gjörningi.

 

Hver ber ábyrgðina? Eða ber enginn ábyrgð? Eru sumir menn jafnvel svo heilagir að engin ábyrgð verði felld á þá?

 

Svör við öllu þessu hljóta að fást á næstunni. Þá munum við komast að því hvort hér hafi verið á ferðinni fúsk aldarinnar og ófyrirgefanleg vinnubrögð varðandi meðferð á fjárhagslegu fjöreggi þjóðarinnar á örlagastundu eða ekki.

 

Rtá.