Sigríður Dögg Auðunsdóttir, formaður Blaðamannafélags Íslands, lýsti því afdráttarlaust yfir í Stundinni í síðustu viku að Björn Ingi Hrafnsson, ritstjóri Viljans, væri ekki blaðamaður heldur bloggari með eigin bloggsíðu. Orðrétt sagði hún:
„Björn Ingi titlar sig sem blaðamann á Viljanum en hann er ekkert annað en bloggari á sinni eigin bloggsíðu. Hann hefur ekki verið að auka skilning fólks á því hvað felst í því að vera blaðamaður. Ég er ekki þar með að segja að hann ástundi óheiðarleg vinnubrögð. Ég er að halda því fram að miðillinn hans geti ekki talist áreiðanlegur fréttamiðill sem vinnur samkvæmt skilgreiningum ritstjórnar og þeim vinnubrögðum sem þar eru viðhöfð því þetta er bara einn maður sem heldur úti bloggsíðu, það getur aldrei verið ritstjórn.“
Skiljanlega brást Björn Ingi við þessum ásökunum formannsins, sem jafnframt er fréttamaður á RÚV sem sem fær ríflega fimm milljarða framlag frá skattgreiðendum á næsta ári og hækka um 430 milljónir milli ára á meðan framlög til allra annarra fjölmiðla eru skorin niður og nema í heild lægri fjárhæð en hækkunin ein til RÚV. Á Facebook síðu sína skrifaði hann:
„Þetta er ansi merkileg sending frá formanni Blaðamannafélags Íslands, sem reyndar er líka starfsmaður Rikisútvarpsins sem er hægt og bítandi að kremja niður frjálsa fjölmiðlun í landinu og þarf endalaust meira fjármagn. Kannski er draumurinn sá að allir fjölmiðlamenn vinni hjá ríkinu.“
Færslu sinni lauk hann með eftirfarandi orðum:
„En mikið væri nú gott að sjá formann Blaðamannafélagsins lyfta litlafingri til að verja frjálsa fjölmiðlun í þessu landi áður en hún deyr út í stað þess að ráðast að þeim sem eru þó að reyna að gera eitthvað.“
Ef marka má skilaboð frá Sigríði Dögg í þræðinum á Facebook síðu Björns Inga um helgina hefur hún nú étið stóryrðin ofan í sig:
„Þetta var ekki nógu vel orðað hjá mér eins og haft er eftir mér í þessu viðtali og ég hef leiðrétt þetta í viðtölum sem ég hef farið í síðan. Haft var eftir mér um þig: "bloggari á sinni eigin bloggsíðu“. Ég var hér að ræða um miðilinn en ekki þann sem skrifar á hann og vandaði ekki orðaval mitt nægilega vel. Bloggari getur vel verið blaðamaður þótt bloggið sé ekki fjölmiðill. Ég hefði átt að skýra þetta betur þegar ég var að fjalla um skilgreiningu á hugtakinu fjölmiðill. Ég hef sjálf lagt áherslu á að þessum hugtökum sé ekki grautað saman, blaðamennsku og fjölmiðlum. En var svo sjálf ekki nógu skýr í eigin útskýringum. Blaðamaður getur unnið við blaðamennsku óháð miðlun efnis. Hann getur skrifað bók, gert heimildarmynd, bloggað eða gert hlaðvarp og allt undir merkjum blaðamennsku. Það sem ég var að ræða um í viðtalinu við Stundina var skilgreining á hugtakinu fjölmiðill. Ekki á hugtakinu blaðamennska. Ég hefði átt að gæta meiri nákvæmni í því.“
Ekki verður betur séð en að Björn Ingi vinni fullnaðarsigur í þessu máli, en formaður Blaðamannafélagsins ætti ef til vill að gæta orða sinna og vanda vinnubrögð sín betur framvegis.
- Ólafur Arnarson