Um helgar er tilefni til að gera vel við sig og sína og baka ljúffenga köku með kaffinu. Hér er á ferðinni fullkominn kaffimarengs úr smiðju Berglindar Hreiðars köku- og matarbloggara með meiru sem heldur úti síðunni Gotterí og gersemar. Berglind er iðin við að baka og elskar púðursykursmarengs. „Ég held að ég geti gert endalausar tilraunir með nýjar fyllingar. Hér prófaði ég að setja kaffikrem ofan á marengsinn og kaffi í rjómann og vá hvað þetta er fullkomin kaka,“segir Berglind sem missti alveg yfir þessari marengsbombu.
Kaffimarengs að hætti Berglindar Hreiðars
Marengsbotn
- 6 eggjahvítur
- 150 g sykur
- 330 g púðursykur
- 2 tsk. Cream of tartar
- Hitið ofninn í 120°C.
- Þeytið eggjahvítur þar til þær fara að freyða.
- Blandið báðum tegundum af sykri saman í skál og setjið saman við eggjahvíturnar í litlum skömmtum.
- Þeytið þar til topparnir halda sér vel, lækkið þá hraðann og bætið Cream of tartar saman við og blandið stutta stund.
- Teiknið hring á bökunarpappír (á bökunarplötu) sem er um 23-35 cm í þvermál, hellið blöndunni þar á miðjuna og reynið að móta nokkurs konar grunna skál.
- Það er gott að ýta fyrst upp úr miðjunni til hliðanna og móta nokkurs konar holu. Fara síðan með spaða að utanverðu allan hringinn og draga í sveig upp og ofan í holuna.
- Bakið í 110 mínútur og leyfið síðan að kólna með ofninum áður en þið fyllið og skreytið.
Kaffikrem
- 70 g brætt smjör
- 180 g flórsykur
- 30 g bökunarkakó
- 2 tsk. vanilludropar
- 4 msk. heitt uppáhellt BKI Gull kaffi
- Setjið allt saman í skál og pískið saman.
- Hellið yfir marengsbotninn, bæði ofan í „holuna“ og upp á kantana svo aðeins leki niður.
- Næst fer rjómafyllingin yfir kremið.
Rjómafylling
- 4 msk. kalt, uppáhellt BKI Gull kaffi
- 500 ml rjómi
- Hershey‘s kisses og bökunarkakó til skrauts
- Setjið kalt kaffið og rjómann saman í skál og þeytið þar til stífþeytt.
- Setjið ofan í „holuna“ og aðeins upp á kantana á marengsinum.
- Sigtið smá bökunarkakó yfir rjómann og skreytið með Hershey‘s kossum.
Berið fram á fallegan hátt og njótið.
Þvílík freisting að njóta þessara fullkomnu marengsbombu úr smiðju Berglindar./Ljósmyndir Berglind Hreiðars.