Ein af okkar ástsælustu matar- og sælkerabloggurum, Linda Ben, eins og hún er að alla jafna kölluð var að gefa út sína fyrstu uppskriftabók fyrir jólin sem ber heitið einfaldlega heitið Kökur. Linda er þekkt fyrir fágaðan stíl og framreiðslu, þar sem hvert einasta smáatriði er úthugsað. Svo eru kökurnar hennar svo ljúffengar, þær eru bæði fallegar fyrir augað og sálina, og bráðna í munni sælkeranna. Við fengum Lindu til að segja okkur aðeins frá tilurð bókarinnar og svipta hulunni af sínum uppáhalds eftirrétti sem væri viðeigandi að töfra fram um hátíðarnar.
Innblástur úr gömlu uppskriftarbók mömmu
Segðu okkur Linda, hvar fékkstu innblásturinn þegar þú varst að vinna að bókinni þinni? „Ég fékk mikinn innblástur frá gömlu handskrifuðu uppskriftabókinni hennar mömmu sem ég elskaði að fletta í gegnum sem barn. Það er eitthvað við að fletta síðunum og vita að hver einasta uppskrift er algjörlega skotheld. Ég vildi gera svoleiðis bók, bók sem fólk myndi elska að fletta, með fallegum myndum og skotheldum uppskriftum.“ Hefur þú verið ástríðu bakari frá þú manst eftir þér? „Já, ég hef alltaf haft mjög gaman að því að baka og ég á mjög sterkar minningar af mér í eldhúsinu, hvort sem ég var að baka með mömmu, ömmu, systir minni eða vinkonum, ég náði einhvernveginn alltaf að smita fólk í kringum mig af þessum bakstursáhuga.“
Fáguð og falleg bókarkápan á bókinni Kökur sem er fyrsta uppskriftarbókin sem Linda Ben sendir frá sér.
Elskar að gefa hlutum aukna ást
Framsetning þín er ávallt fallega og laðar augað, er það eitthvað sem heftur líka ávallt fylgt þér? „Það er meira eitthvað sem kom með tímanum og æfingunni. Ég hef rosalega gaman að því að gera hluti fallega, hvort sem það er matur, kökur, heimili eða bara hvað sem er. Ég elska að gefa hlutum þessa auka ást sem gerir þá fallegri sem gerir það svo að verkum að maður nýtur þeirra betur.“
Skapa nýja hefðir um jólin
Nú styttist óðum í jólin og áramótin, ertu búin að ákveða matseðilinn fyrir hátíðardagana, aðfangadag, jóladag, gamlársdag og nýárskvöld? „Já, svona að mestu leyti. Á aðfangadag verðum við með hreindýrasteik með sætum kartöflum, heimagerðu rauðkáli og unaðslega góðri hreindýrasósu. Á jóladag er það svo heilsteikt nautalund með sveppasósunni góðu en uppskriftin af henni er inn á síðunni minni lindaben.is. Við erum svo yfirleitt alltaf með humar í forrétt á áramótunum og kalkún í aðalrétt.“
Heldur þú fast í hefðir og siðir í matargerð um jólin? „Við erum að fara halda jólin í fyrsta skipti heima þessi jólin sem svolítið setur aðrar hefðir úr skorðum, en við erum mjög spennt að byrja skapa okkar eigin hefðir.“ Ertu til í að svipta hulunni af þínum uppáhalds eftirétt sem er tilvalinn að bjóða uppá um hátíðarnar? „Þessi bakaða ostakaka er fullkominn sem eftirréttur eftir góða máltíð. Hún er einföld og virkilega ljúffeng, en það besta er að það er mjög gott að gera hana daginn áður sem minnkar allt stress sem á til að skapast í eldhúsinu á hátíðsdögunum. Vinkona mín á heiðurinn að þessari bökuðu ostaköku sem sló í gegn eftir að hún bauð upp á hana í matarboði. Franska súkkulaðikakan og ostakakan eru bakaðar í einu lagi og því er uppskriftin sérlega auðveld í framkvæmd.“
Linda Ben sviptir hulunni af hinum fullkomna eftirrétti fyrir hátíðarnar. Myndir aðsendar.
Bökuð ostakaka á franskri súkkulaðiköku
Tími: 20 mín. (framkvæmd) + 50 mín. (bakstur) + 20 mín. (kæling) = 1½ klst. Þið þurfið 20 cm smelluform. Kökuna má gera daginn áður og bæta rjómanum við rétt áður en hún er borin fram.
Súkkulaðikaka
- 200 g dökkt súkkulaði
- 200 g smjör
- 250 g flórsykur
- 3 egg
- 110 g hveiti
Ostakaka
- 400 g rjómaostur
- 150 g flórsykur
- ½ tsk. vanilludropar
- 2 egg
Toppur
- 250 ml rjómi
- 100 g flórsykur
- Fersk ber
Aðferð
- Kveikið á ofninum og stillið á 175°C með yfir- og undirhita.
- Bræðið súkkulaði og smjör og setjið í skál ásamt flórsykri. Setjið eggin út í, eitt í einu og hrærið á milli. Blandið hveitinu saman við.
- Blandið saman rjómaosti, flórsykri og vanilludropum í annarri skál. Bætið eggjunum út í, einu í einu og hrærið saman þar til allt hefur samlagast en passið að hræra ekki of mikið.
- Smyrjið 20 cm smelluform og klæðið bæði botn og hliðar með smjörpappír. Hellið súkkulaðideiginu ofan í formið og svo ostakökudeiginu ofan á. Bakið í 45-50 mín. eða þar til kakan hefur brúnast en er enn svolítið blaut. Takið kökuna úr ofninum og leyfið henni að kólna.
- Þeytið rjómann og blandið flórsykri saman við. Setjið rjómablönduna ofan á kökuna og skreytið með ferskum berjum.
Njótið vel yfir hátíðarnar.
Linda Ben er afar fær þegar kemur að því að töfra fram dýrindis kökur við ýmis konar tækifæri. Myndir aðsendar.