Hótanir fjármálaráðherra um að pína lífeyrissjóði landsins til að gefa ríkinu stórkostlegan afslátt af kröfum þeirra á hendur ÍL-sjóði ganga ekki upp. Stjórnum og stjórnendum lífeyrissjóða er óheimilt að gefa afslátt af lögmætum kröfum sem þeir eiga. Framkvæmdastjóri Landssambands lífeyrissjóða, Þórey S. Þórðardóttir, talar mjög afdráttarlaust um þetta í viðtali við Hringbraut og Fréttablaðið í gær. Hún segir að það sé beinlínis stórhættulegt ef ríkið ætlar að beita löggjafarvaldinu til að grípa inn í og breyta gildandi samningum sem ríkið ber ábyrgð á. Með því væri gefið afleitt fordæmi sem ætti eftir að rýra trúverðugleika ríkisins sem samningsaðila á markaði. Það gæti haft alvarlegar afleiðingar í för með sér.
Nú er það svo að stjórnum lífeyrissjóða er algerlega óheimilt að gefa eftir kröfur lífeyrisjóða enda standa þær á bak við lífeyrissparnað sjóðsfélaga sem flokkast undir stjórnarskrárvarinn eignarrétt. Þórey er lögfræðingur að mennt og hefur starfað á vettvangi lífeyirssjóða á þriðja áratug. Hún er vel að sér um allar reglur, lög og hefðir sem gilda um rekstur lífeyrissjóða og veit því alveg hvað hún er að fjalla um þegar hún segir að lífeyrissjóðunum sé ekki heimilt að gefa þumlung eftir. Ríkið geti ekki náð neinum samningum við þá um niðurfellingu eða lækkun á umræddum skuldbindingum.
ÍL-sjóður er á ábyrgð ríkissjóðs. Hann glímir við mjög mikinn fjárhagsvanda sem varð til í byrjun þessarar aldar, í valdatíð Sjálfstæðisflokks og Framsóknar þegar teknar voru glæfralegar ákvarðanir um útlán, fjármögnun og rekstur sjóðsins. Sá vandi hefur svo einungis farið vaxandi. Það er alveg rétt hjá Bjarna Benediktssyni. Hitt er svo annað mál að þessi vandi verður ekki leystur með því að ríkisvaldið þvingi lífeyrissjóðina til að gefa eftir lögmætar kröfur sínar. Það mun ekki gerast og ríkinu mun ekki takast að þvinga það fram. Ekki má gleymast að hér er um að tefla lífeyrissparnað landsmanna - kjósendanna - sem ríkisstjórnin þarf að standa frammi fyrir í kosningum.
Frumhlaup fjármálaráðherra í þessu máli er fyrirfram dauðadæmt. Nú má spyrja hvers vegna Bjarni Benediktsson velur einmitt þessa tímasetningu til að varpa þessu stóra og umdeilda máli fram. Freistandi er að álykta sem svo að hann sé með þessu að reyna að draga athygli almennings frá efni bankaskýrslunnar sem beðið hefur verið eftir í hálft ár án þess að hún hafi ennþá komið landsmönnum fyrir sjónir. Ætla verður að skýrslan komi út á næstu dögum, alla vega fyrir lok næstu viku þegar landsfundur Sjálfstæðisflokksins hefst. Það væri vægast sagt vandræðalegt fyrir Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokksins, ef útkoma skýrslunnar drægist fram yfir landsfund. Þá væri auðvelt að draga þá ályktun að verið væri að tefja útkomu hennar vísvitandi fram yfir fundinn, en skýrslan á m.a. að fjalla um embættisfærslu Bjarna varðandi sölu á 22,5 prósenta hlut í Íslandsbanka sem að einhverju marki virðist hafa mistekist.
Þessir atburðir eru óheppilegir fyrir formann Sjálfstæðisflokksins sem ætlaði að ganga inn á landsfund flokksins og láta klappa sig upp. Nú stefnir í að hann fái mótframboð frá þeim vinsæla ráðherra, Guðlaugi Þór Þórðarsyni, sem er þekktur fyrir mikinn dugnað og baráttuþrek. Guðlaugur hefur alla tíð þurft að berjast fyrir frama í flokknum og ávallt náð sínu fram.
Guðlaugur Þór er fæddur baráttumaður og sigurvegari. Ekki er gott fyrir neinn að etja kappi við þannig andstæðing. Landsfundurinn gæti markað tímamót.
- Ólafur Arnarson.